Þá er komið að því sem við höfum öll verið að bíða eftir frá því í lok október á síðasta ári: Úrslitaviðureign NBA deildarinnar 2016 hefst fimmtudagskvöldið 2. júní í Oakland á heimavelli Golden State Warriors. Í úrslitum mætast liðin sem ég spáði að myndu mætast Golden State Warriors (sem unnu Oklahoma í sjö leikjum eins og ég spáði (!) og Cleveland Cavaliers (sem unnu Toronto í sex leikjum (ég hafði spáð 4-0!).
Golden State Warriors – Cleveland Cavaliers
Þvílík veisla sem er framundan! Ég er búinn að skipta svo oft um skoðun varðandi þessa viðureign að það hálfa væri nóg! Curry og félagar fara létt í gegnum þetta, LeBron kemur með titil til Cleveland (sem yrði náttúrulega ótrúlegt!), CSW í sjö leikjum, Cleveland í sjö leikjum og allt þar á milli. Ég er búinn að vera hrifinn af spilamennsku Golden State síðustu árin en ekki verið eins hrifinn af Cleveland liðinu þangað til Lue tók við þjálfuninni af Blatt á miðju tímabili. Bæði lið eru með frábærar stórstjörnur og flotta “role players”, þjálfara sem eru fyrrum leikmenn og virðast vita hvað þeir eigi að gera með mannskapinn sem þeir eru með. Ég ætla bara að hefja skrif og kemst vonandi að niðurstöðu í ekki alltof mörgum orðum!
Golden State Warriors með Steph Curry í fararbroddi er náttúrulega með frábært lið, Klay Thompson sem steig upp gegn Oklahoma, Andrew Bogut sem leynir á sér bæðií vörn og sókn, Draymond Green, sem hefði líklega átt að fá einn leik í bann gegn OKC, Harrison Barnes sem á enn talsvert inni en virðist stíga upp á afar mikilvægum augnablikum í leikjum og Andre Iguodala, sem verður örugglega settur til höfuðs LeBron nánast hverja einustu mínútu í viðureigninni, verða allir að ná sér á strik ef GSW á að sigra sterkt lið Cleveland. Leikmannahópurinn er reyndar skipaður fleiri skemmtilegum og sterkum leikmönnum eins og Shaun Livingston, Anderson Varejo og Barbosa til að nefna nokkra sem þurfa að stíga upp til að klára LeBron og félaga.
Cleveland Cavaliers standa og falla með LeBron James sem var ekki langt frá því að vinna titilinn einn í fyrra en mætti ofjörlum sínum í GSW. Í ár er Cleveland liðið betur samsett til að eiga möguleika gegn Warriors þar sem LeBron hefur núna Kevin Love og Kyrie Irving sem vantaði í úrslitum í fyrra vegna meiðsla! LeBron James (og James Jones félagi hans í Cleveland) eru einu leikmennirnir í sögu NBA, sem ekki hafa spilað með Boston Celtics, til að komast sex ár í röð í úrslit NBA! Tristan Thompson og J.R. Smith eru frábærir leikmenn hvor á sinn hátt og varamennirnir Channing Frye (sem er með yfir 53% í þriggja stiga nýtingu í úrslitakeppninni!), Iman Schumpert, Richard Jefferson að ógleymdum Matthew Dellavedova sem ærir alla sem hann spilar á móti hafa verið að spila virkilega vel með liðinu sem er 12-2 í úrlitakeppninni þetta ári.
Þjálfarar liðanna, Steve Kerr hjá Warriors og Tyonn Lue hjá Cavaliers munu eflaust breyta um taktík nokkrum sinnum í leikjunum sem framundan eru og verður spennandi að sjá hver á að stöðva galdramanninn Curry og stórskyttuna Thompson hjá Colden State og hver á að stoppa LeBron, Irving og Love hjá Cleveland. Bæði liðin eiga eftir að skora margar þriggja stiga körfur og verður J.R. Smith þar fremstur meðal jafningja! Frammistaða “role players” á eftir að skipta sköpum í þessum leikjum og ég er á því það verði vegna þeirra sem Cavliers verða meistarar í ár og fyrsti titillinn í Cleveland í 50 ár verði staðreynd.
LeBron James verður valinn MVP með nálægt þrefaldri tvennu að meðaltali í þessari mögnuðu rimmu sem framundan er. Takk fyrir að nenna að eyða nokkrum mínútum í lestur þessara hugleiðinga minna og góða skemmtun og góðar stundir!
Mín spá: Golden State Warriors 2 – Cleveland Cavaliers 4