Sigurður Gunnar Þorsteinsson og félagar í Doxa Pefkon spiluðu sinn síðasta leik á þessu tímabili í gærkvöld í umspili um sæti í A2. Leikurinn var gegn liði Peristeri GS og sigruðu Doxa nokkuð sannfærandi 86-63. Með sigrinum felldu þeir Peristeri og tryggðu á sama tíma sæti sitt í deildinni
Mikil stemning var á leiknum og var höllin smekkfull. Frá fyrstu mínútu var ljóst að Doxa ætlaði ekki að gefa neitt eftir og náðu 11-0 spretti í upphafi leiks sem lagði grunninn að sigrinum. Strax í öðrum leikhluta var munurinn orðinn 20 stig og var aldrei litið um öxl.
Siggi, sem var með sjö stig í leiknum, sagði veturinn heilt yfir hafa gengið vel þrátt fyrir að liðið hafi verið í töluverðum meiðslavandræðum. Kom fyrir að Siggi væri eini stóri leikmaður liðsins og í nokkrum þeirra var hann með einn 19 ára gutta með sér á blokkinni.
Leikurinn í gær var ekki aðeins síðasti leikur Sigurðar á tímabilinu heldur var þetta jafnframt síðasti leikur Sigga í búning Doxa en hann hyggst færa sig um set. Hvert hann heldur er ekki komið á hreint en vonandi skýrist það á næstu vikum.
Aðspurður hvort hann væri á heimleið sagði Sigurður svo ekki vera nema þá bara til að koma heim í sumarfrí.