Real Madrid reyndust vera banabiti Valencia þetta árið en í kvöld töpuðu þeir appelsínuklæddu leik fjögur gegn Real Madrid á lokametrunum líkt og vanalega 80:82. Jón Arnór spilaði 15 mínútur í leiknum og skoraði 8 stig fyrir sína menn sem dugðu þó ekki. Enn og aftur var það Sergio Llull sem reyndist Valencia erfiður ásamt Bandaríkjamanninum Jaycee Caroll sem er líkt og hlaðinn rifill í hvert skipti sem hann mætir til leiks.
Þar með er frábæru tímabili Valencia lokið þó svo að ekki hafi titill komið í hús. Milljón króna spurningin er svo sú hvort þetta hafi verið endalok Jóns Arnórs Stefánssonar í atvinnumennskunni en háværar raddir segja hann jafnvel á leið heim í Dominosdeildina. Reyndar hafa þessar raddir heyrst síðustu ca 2 árin en aldrei háværari en einmitt núna. Það væri þá ansi sterkt fyrir deildina að fá okkar allra besta leikmann til að sýna listir sínar á næsta tímabili hér heima fyrir.
Mynd/ValenciaFacebook: Jón Arnór eftir leik í kvöld