Úrslitaeinvígi NBA deildarinnar heldur áfram í kvöld þegar Lebron James og félagar í Cleveland mæta til Oakland og þar sem Golden State Warriors tekur á móti þeim.
Staðan fyrir leikinn er 3-1 og geta því heimamenn frá gullna ríkinu tryggt sér titilinn stóra með sigri.
Óhætt er að segja að Cleveland séu með bakið upp við vegg því þrátt fyrir 30 stiga sigur í leik þrjú hafa aðrir leikir unnist nokkuð sannfærandi að hálfu Golden State. Með því að vinna leik fjögur á útivelli eru níu fingur komnir á titilinn og verður erfitt fyrir Cavs að koma til baka.
Sagan hjálpar þeim heldur ekki því ekkert lið hefur komið til baka úr stöðunni 3-1 í úrslitaeinvíginu og sigrað. Liðið hefur þó galdramann í sínum fórum í Lebron James og það skildi engin voga sér að afskrifa Cleveland þó líkurnar séu vissulega ekki með þeim.
Dreymond Green mun sitja inní sérstöku VIP herbergi í Oracle höllinni þar sem hann tekur út leikbann í kvöld eftir að hafa átt í full vinalegum samskiptum við Lebron James í leik fjögur. Sú staðreynd hefur klárlega áhrif á Warriors þar sem Green er mikilvægur partur af spili þeirra og verður áhugavert að sjá hvernig þeir svara því.
Hvort Cleveland tekst að finna afsökun til að spila Kevin Love sem minnst á eftir að koma í ljós en þeir virðast spila best án hans. Þá myndi það henta Cavaliers vel að hafa handboltaskiptingar þar sem Borgnesingurinn Kyrie Irving hefur reynst verri en engin varnarlega í einvíginu.
Ef spádómar rætast og Golden State klárar einvígið verður óeftirsóknarverðasta starf heimsins að velja MVP úrslitaeinvígisins. Engin leikmaður liðsins stendur sérstaklega uppúr en Curry og Klay hafa átt misjafna leiki.
Leikurinn hefst klukkan eitt að íslenskum tíma með þjóðsöng og tilheyrandi stælum. Allt er þetta í þráðbeinni á Stöð 2 sport svo það er engin afsökun fyrir öðru en að vaka.