Lebron James og Kyrie "Borgarnes" Irving héldu kampavíninu í ískápnum hjá þeim Golden State Warriors í nótt þegar þeir skoruðu milli sín 82 stig og skrifuðu söguna þar sem þeir eru einu liðsfélagar til að skora 40 stig eða meira í leik í úrslita einvíginu. Leik lauk 112:97 Cleveland í vil og mun leikur númer 6 í seríunni fara fram á komandi fimmtudagskvöld/nótt.
Leikurinn í nótt hófst með látum og í raun skotsýningu hjá helstu sóknarvopnum beggja liða. Klay Thompson hefði líkast til varla getað klikkað úr skoti þó hann hefði reynt það og var komin með 26 stig í fyrri hálfleik. Lebron James var honum jafnoki og augljóst að hann var að njóta sín betur með Draymond Green í banni. Stephen Curry og Kyrie Irving fylgdu svo sínum mönnum í skorun og hátt í 80% stiga fyrri hálfleiks skoruðu þessir fjórir leikmenn.
Í seinni hálfleik tóku þeir félagar Lebron og Irving leikinn á sínar herðar og sem fyrr segir komu Cleveland aftur inn í þetta einvígi. Klay Thompson sem fyrr segir var frábær í fyrri hálfleik en náði sér ekki á strik í þeim seinni. Warriors urðu svo fyrir blóðtöku þegar Andrew Bogut meiddist á hné í þriðja leikhluta og spilaði hann ekki meira í leiknum.