U16 ára landslið stúlkna sigraði Noreg nokkuð örugglega í dag í öðrum leik liðsins á NM 2016 í Finnlandi. Íslensku stelpurnar náðu yfirhöndinni strax á fyrstu mínútunum og létu hana aldrei af hendi. Þær sigruðu að lokum með 32 stiga mun, 70-38 og tryggðu sér þar með sinn fyrsta sigur á mótinu í ár.
Elsa Albertsdóttir opnaði leikinn fyrir Íslendinga en Norðmenn svöruðu með að setja fjögur auðveld stig. Jafnt var á með liðunum í þessum fyrsta fjórðungi og þó svo að Ísland leiddi megnið af honum, þá hleyptu Norðmenn þeim aldrei langt frá sér. Nokkurs stress virtist gæta hjá báðum liðum og auðveld skot ekki að detta hjá íslensku stelpunum. Íslenska liðið var sterkara á lokamínútunum og leiddi eftir fyrsta leikhluta 24-17. Stigaskor dreifðist nokkuð vel á milli leikmanna en Hrund Skúladóttir og Birna Valgerður Benónýsdóttir voru stigahæstar með 5 stig hvor.
Íslensku stelpurnar mættu virkilega sterkar til leiks í öðrum leikhluta, spiluðu stífa í vörn og sóttu sóknarfráköstin grimmt. Þær juku forystuna jafnt og þétt í leikhlutanum og leiddu í hálfleik með 16 stigum, 42-26. Slök vítanýting Norðmanna aðstoðaði við að skapa þennan mun en þær hittu úr einungis 3 af 12 vítaskotum sínum í fyrri hálfleik.
Birna Valgerður opnaði seinni hálfleik með risastórum þristi fyrir Ísland en Norðmenn svöruðu með þristi sín megin. Ísland hélt áfram að gera Norðmönnum lífið leitt með sterkri vörn og fleiri urðu stig Norðmanna ekki í leikhlutanum. Ísland því komið í þægilega stöðu fyrir lokafjórðunginn, 58-29. Jafnara var með liðunum í lokafjórðungnum, bæði lið börðust vel en Íslendingar voru óheppnir að klára ekki nokkur opin skot. Það kom þó ekki að sök, forskot Íslendinga of stórt og þær sigldu því heim öruggum 32 stiga sigri, 70-38.
Stigaskor og spilatími dreifðist vel á milli íslensku leikmannanna og komust þær allar á blað í leiknum. Baráttan var í fyrirrúmi, barist um hvern lausan bolta og tók íslenska liðið t.a.m. með 24 sóknarfráköst á móti 12 sóknarfráköstum Norðmanna.