Undir 16 ára lið stúlkna tapaði sínum öðrum leik á NM 2016 í Finnlandi í dag þegar þær lutu í lægra haldi fyrir Svíþjóð. Eftir að hafa leitt með 4 stigum í hálfleik, þá reyndist þéttingsföst vörn Svíanna vera Íslendingum um megn og skoruðu þær ekki nema 12 stig í seinni hálfleik. Svíar sigruðu leikinn með 16 stigum, 54-38.
Svíar skoruðu fyrstu stig leiksins af vítalínunni en íslensku stelpurnar voru fljótar að svara fyrir sig og ná yfirhöndinni. Boltinn gekk vel í sókninni hjá Íslendingum og þær voru óhræddar að sækja á körfuna. Baráttan var til fyrirmyndar og vel gekk að leysa úr stífri pressu vörn Svíanna. Ísland jók forskot sitt jafnt og þétt í fjórðungnum og leiddu að honum loknum með 7 stigum, 10-17. Birna Valgerður var stigahæst Íslendinga eftir fyrsta leikhluta með 9 stig og Hrund og Kamilla Sól tóku 3 fráköst hvor.
Eftir fínan fyrsta leikhluta fór aðeins að halla undan fæti hjá íslenska liðinu í öðrum leikhluta. Erfiðara reyndist að leysa pressu Svíanna og endaði liðið með 7 tapaða bolta í fjórðungnum samanborið við 3 tapaða bolta í fyrsta leikhluta. Íslenska liðið hleypti Svíum þó aldrei fram úr sér og leiddu í hálfleik með 4 stigum, 22-26.
Í seinni hálfleik hrundi sóknarleikur íslenska liðsins, ekkert vildi ofan í körfuna og skoraði liðið ekki nema 12 stig á síðustu tuttugu mínútunum. Svíar komust yfir um miðjan þriðja leikhluta í stöðunni 30-28 og létu forskotið ekki af hendi eftir það. Varnarleikur Svía var mjög þéttur í kvöld og gerðu þær íslensku stelpunum erfitt fyrir í sóknarleiknum. Í ofaná lag voru opin skot ekki að detta hjá Íslendingum og tók liðið 17 þriggja stiga skot í leiknum en ekkert þeirra rataði rétta leið. Stelpurnar eiga því nóg inni fyrir leikinn á morgun gegn Eistum.
Atkvæðamest íslenska liðsins í kvöld var Birna Valgerður Benónýsdóttir með 18 stig, 10 fráköst og 2 stoðsendingar og Hrund Skúladóttir bætti við 14 stigum, tók 5 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.