spot_img
HomeFréttirTap á móti Eistum í jöfnum leik

Tap á móti Eistum í jöfnum leik

Undir 18 ára landslið drengja tapaði sínum fyrsta leik á NM 2016 þegar þeir léku á móti Eistum í dag. Íslendingar leiddu með 9 stigum eftir fyrsta fjórðunginn en slakur annar leikhluti varð þeim að falli og fór Eistland með sigur af hólmi 73-71. Íslendingar spila lokaleik sinn á mótinu á morgun á móti Finnum sem töpuðu fyrir Svíþjóð í kvöld og er það eini tapleikur Finna til þessa. Með sigri á morgun myndu íslensku strákarnir því tryggja sér sigur á mótinu. Leikurinn fer fram kl. 12:45 að íslenskum tíma og verður sýndur á síðunni Fanseat en greiða verður fyrir aðgang að síðunni.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiksins, Eistar skoruðu fyrstu stigin en Yngvi Freyr svaraði fyrir Íslendinga eftir fallega stoðsendingu frá Ingva Þór. Íslendingar náðu fjögurra stiga forystu í stöðunni 9-13 en Eistar minnkuðu muninn aftur niður í 1 stig, 12-13. Gott flæði á boltanum í sóknarleik Íslendinga og mikil barátta lagði grunn að 9 stiga forskoti Íslands eftir fyrsta leikhluta, 16-25. Stigahæstir eftir fjórðunginn voru Ingvi Þór með 6 stig og Jón Arnór og Yngvi Freyr með 5 stig.

Eistar hertu til muna á varnarleiknum í öðrum leikhluta og nýttu skot sín betur. Þeir unnu upp forskot Íslendinga og komust yfir um miðjan leikhlutann í stöðunni 32-30. Eistar héldu áfram að auka forystuna og voru komnir 11 stigum yfir rétt undir lok fyrri hálfleiks. Íslendingar náðu að klóra í bakkann áður en flautað var til hálfleiks með þéttari varnarleik og hraðaupphlaupum í kjölfarið. Staðan í hálfleik 43-37 fyrir Eistland. Stigahæstir í liði Íslands í hálfleik voru Þórir og Yngvi Freyr með 7 stig.

Varnarleikur Íslendinga skánaði í þriðja leikhluta og Eistland hitti ekki jafnvel úr skotum sínum eins og í öðrum leikhluta. Íslensku strákanir náðu að saxa jafnt og þétt á forskot Eistlands og jöfnuðu þegar skammt lifði fjórðungsins en síðustu þrjú stig voru Eistlands og leiddu þeir eftir þriðja leikhluta 56-53.

Við tók taugatrekkjandi lokafjórðungur þar sem Íslendingar komust yfir í stöðunni 62-63 með tveimur stigum frá Eyjólfi Ásberg eftir stoðsendingu Ingva Þórs en Eistar voru fljótir að ná forystunni aftur. Íslendingar voru óheppnir í sóknarleiknum og opin skot voru ekki að detta. Þeir náðu þó yfirhöndinni þegar rúm mínúta var eftir af leiknum en Eistar voru sterkari á lokasprettinum og sigruðu með tveimur stigum, 73-71.

Maður leiksins var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 18 stig, 6 fráköst, 6 stolna bolta og 6 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -