Undir 16 ára landslið stúlkna tapaði fyrir sterku liði Finna í dag í síðasta leik liðanna á NM 2016 í Finnlandi. Eftir jafnan fyrri hálfleik þá reyndist finnska liðið vera of sterkt í seinni hálfleik og lönduðu þær nokkuð öruggum 19 stiga sigri, 51-70. Íslensku stelpurnar luku því keppni á mótinu í 4. sæti með 2 sigra og 3 töp.
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, sterkar varnir og lítið skor. Sigrún Elfa Ágústsdóttir byrjaði vel fyrir Íslendinga, skoraði fyrstu sex stig liðsins og var óhrædd við að keyra á hávaxið lið Finnanna. Finnska liðið pressaði stíft á íslensku stelpurnar og enduðu þær með 10 tapaða bolta í fjórðungnum. Finnland leiddi eftir fyrsta leikhluta með 1 stigi, 10-11. Sigrún Elfa var komin með 6 stig fyrir Íslendinga og Birna Valgerður 4 stig.
Birna Valgerður setti fyrstu stig annars leikhluta fyrir Íslendinga eftir fallega stoðsendingu frá Kristínu Maríu. Íslenska vörnin var virkilega þétt í upphafi annars leikhluta og komu fyrstu stig Finna ekki fyrr en um fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum þegar þær settu niður víti. Vörn Finna var að sama skapi sterk og þar með stigaskor lítið en stærsta forskot Íslands í fjórðungnum var 6 stig í stöðunni 17-11. Finnar leiddu í hálfleik með 2 stigum, 24-26, en þar skipti sköpum að íslenska liðið brenndi af 10 vítaskotum í fyrri hálfleik og var ekki með nema 41% vítanýtingu. U16 lið stúlkna missti sinn annan leikmann í meiðsli í lok fyrri hálfleiks þegar Kamilla Sól fór af velli vegna ökklameiðsla.
Finnsku stelpurnar mættu gríðarlega ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og komust 12 stigum yfir þegar skammt var liðið á þriðja leikhluta. Þær voru að hitta vel úr skotunum sínum og hleyptu íslensku stelpunum ekki að körfunni. Vörn Íslands hrökk í gang um miðjan fjórðunginn og með því að stoppa fjórar sóknir Finnanna í röð minnkuðu þær muninn niður í 5 stig í stöðunni 33-38. Nær komust Íslendingar ekki og Finnar sigruðu leikinn nokkuð örugglega með 19 stigum, 51-70.
Vítanýtingin reyndist Íslendingum dýrkeypt í dag en þær fóru 36 sinnum á vítalínuna og nýttu einungis 17 af skotum sínum. Finnar spiluðu stífa vörn á íslenska liðið sem endaði í 36 töpuðum boltum hjá Íslendingum á móti 25 töpuðum boltum Finna.
Maður leiksins var Birna Valgerður Benónýsdóttir með 21 stig og 15 fráköst. Birna var einnig valinn í stjörnulið mótsins í U16 stúlkna.