spot_img
HomeFréttirÖnnur nálgun

Önnur nálgun

 

 

Undanfarin ár hefur eitt mesta þrætuepli innan körfuknattleiks á Íslandi án efa verið útlendingareglan, eða 4+1 reglan eins og sumir kalla hana. Umræðan hefur farið út og suður og ekkert okkar virðist geta sammælst um á hvaða grundvelli rökræðurnar (eða öllu heldur rifrildin) eigi að fara fram. Erum við að takmarka erlent vinnuafl? Bætir þetta íslenskan körfuknattleik? Er hann skemmtilegri með fleiri Íslendingum á vellinum? Munu íslensku landsliðin dala á næstu árum sökum minni samkeppni á æfingum og í leikjum?

 

Í bílferð á leið suður frá körfuboltabúðum KFÍ fór þessi deila af stað milli mín og félaga míns, Nökkva Harðarsonar. Við ræddum þetta í tvo tíma, tveir liðsfélagar og spekúlantar um íslenskan körfubolta, hvernig best væri að standa að þessu, hverjir hefðu rétt fyrir sér og hvort að önnur hlið málsins hefði yfirleitt meira rétt fyrir sér en hin. Ég er nefnilega ekki viss um að það sé ein rétt leið í þessu og það hlýtur að sjást á því hve ósammála við hér á Íslandi erum um þetta. Djúpstæði vandinn að mínu mati er að fólk gefur sér mismunandi forsendur fyrir þessu. Þau félög sem hafa nokkra góða leikmenn en ekki nægilegan fjölda í keppnislið vildu glöð ráða nokkra erlenda leikmenn til að geta verið samkeppnishæf. Önnur félög hafa breiðan grunn af íslenskum leikmönnum og hafa þ.a.l. minni þörf fyrir erlenda leikmenn, nema kannski til að vera samkeppnishæf við önnur lið sem hafa þá. Félög úti á landi missa marga efnilega leikmenn í skóla og vinnu í bænum á meðan lið á höfuðborgarsvæðinu missa yfirleitt enga leikmenn í skóla nema að þeir fari hreinlega í nám erlendis.

 

Hvernig væri hægt að tryggja að allir aðilar að málinu færu frá samningaborðinu (eða næsta KKÍ þingi) nægilega sáttir til að friður héldist um þetta málefni? Mér hefur þótt of mikill tími fara í að rífast um þetta sem gæti farið í að rífast um aðra hluti. Okkur Nökkva datt því í hug lausn sem gæti verið skárri en hin of stranga (að mati sumra) 4+1 regla eða hin heldur frjáslega (að mati sumra) 3+2 regla. Hvað ef að við leyfum 3+2 regluna en tryggjum þess í stað að KKÍ fái meira út úr hverjum útlending til að geta haldið áfram að leggja fjármagn í uppbyggingu körfuknattleiks á Íslandi?

 

Tillaga okkar er eftirfarandi: 3+2 reglan verður sett aftur á en félagskiptagjald seinna útlendingagildisins hækkar. Félagskiptagjald fyrir fyrsta leikmann liðs sem er ekki með íslenskt ríkisfang verður áfram 100.000 kr. en ef lið hyggst bæta við sig öðrum erlendum leikmanni þá hækkar félagskiptagjaldið upp í 500.000 kr., en þó bara í fyrsta sinn. Ef lið hyggst bæta við sig þriðja erlenda leikmanninum yrði félagaskiptagjaldið svo 750.000 kr., en þó bara í fyrsta sinn. 

 

Dæmi um þetta fyrirkomulag væri t.d. svohljóðandi:

Lið ákveður að styrkja sig með erlendum leikmanni. Það fer gegnum venjulega kerfið og fær öll tilhlýðileg leyfi. Það greiðir 100.000 kr. fyrir félagaskipti þess leikmanns. Nú ákveður það að bæta öðrum erlendum leikmanni við; allt er eins og seinast nema það að það nú kosta félagaskiptin 500.000 krónur. Liðið ákveður seinna að reka annan útlendinginn sinn og ráða annan í staðinn; félagaskiptin að þessu sinni kosta 100.000 kr. þar sem að liðið hefur nú þegar greitt 500.000 kr. áður fyrir annað útlendingagildið sitt. Ef liðið ákveður síðan að bæta við sig þriðja útlendingnum (sem það getur ekki notað inni á vellinum nema með skiptingu því að 3+2 reglan er í gildi) þá greiðir það 750.000, en má skipta út þessum þriðja erlenda leikmanni seinna og borga bara 100.000 kr. fyrir.

 

Nú vil ég biðja lesendur um að anda í gegnum nefið á meðan að ég held áfram að útskýra þessa hugmynd. Í fyrsta lagi þá eru þessar upphæðir ekki fastar, þetta eru bara dæmi um hvað væri hægt að leggja á félagaskiptin. Í öðru lagi þá myndi þetta ekki endilega takmarka lið sem hafa vilja og getu til að greiða svona fjárhæðir fyrir erlenda leikmenn, en þetta mun tryggja að KKÍ (og þar af leiðandi körfuboltinn á Íslandi) fær meira út úr erlendu leikmannabraski sem hægt er að nota í innviði körfuboltans hérlendis. Ég tel mig finna það í íslenska körfuboltasamfélaginu að við séum á leiðinni aftur í 3+2 regluna en með þessu móti getum við tryggt áframhaldandi uppbyggingu íslenskra körfuknattleiksmanna.

 

Ég veit ennþá ekki hvort að ég vilji 3+2 eða 4+1 og skipti um skoðun frá degi til dags, en ég held að ef að niðurstaðan verður að fara aftur í 3+2 þá mun þetta fyrirkomulag hjálpa íslenskum körfubolta að komast á ennþá hærra plan en það er í dag. Setjum ekki bara pening í erlenda leikmenn, fjárfestum í innviðum körfuknattleiks á Íslandi.

 

 

Kveðja,

Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -