Það vakti mikla athygli í byrjun júní þegar greint var frá því að Ragnar Nathanaelson væri á leið til NBA liðsins Dallas Mavericks í prufu.
Dvöl Ragnars þar var ekki löng en hann hefur æft í Bandaríkjunum og Karfan.is náði tali á honum um helgina þar sem hann tekur þátt í sumarmóti sem NBA stjarnan Jamal Crawford heldur.
Eins og fram hefur komið var prufa Ragnars hjá Dallas ekki löng en hann segist hafa lagt sig allan fram:
„Ég passaði mig að gera mér ekki of miklar væntingar þegar ég fór til Dallas. Ég ákvað bara að gera mitt besta, skilja allt eftir á vellinum og sjá hvað myndi verða.“ sagði Ragnar um dvölina hjá Dallas og bætti við:
„Þrátt fyrir þetta hugarfar voru það vissulega vonbrigði að komast ekki áfram. Það eru samt enginn heimsendir, það voru strákar þarna sem voru eldri en ég svo ég set þetta bara í reynslu bankann og bíð eftir næsta tækifæri.“
Ragnar segir að aðstaðan hjá Dallas hafi verið ótrúleg „Æfingarnar komu mér nokkuð á óvart, þetta voru spilaæfingar og ég hélt að það yrðu meira um „drillur.“
Dallas ævintýri Ragga lauk 21. júní og síðan þá hefur hann vakið og sofið körfubolta. Það séu æfingar um allt og körfuboltamenningin í Seattle þar sem hann dvelur sé gríðarleg. Ragnar hefur verið hjá Pétri Guðmundssyni fyrrum leikmanni L.A. Lakers sem hefur aðstoðað hann við æfingar og lífið í Bandaríkjunum.
„Það eru ekki til orð til að lýsa því hvað Pétur og Debbie (konu hans) hafa reynst mér vel. Allur stuðningur í heiminum frá þeim hefur gert þetta ótal auðveldara og að betri reynslu.“
„Ég fann morgunæfingar hjá Alvin Snow (sem spilaði með Njarðvík 2005) sem ég er búinn að notfæra mér aðeins. Annars fann ég líka opið hús á morgnanna með skotvél sem ég hef notað. Tvisvar í viku koma nokkrir leikmenn saman til að spila, þar með Isaiah Thomas og Zach Lavine. Bestu æfingarnar eru þegar ég fer með Pétri og við förum yfir hvað það er að vera stór undir körfunni.“ sagði Raggi um dagskránna í Seattle.
Pro Am er sumarmót sem haldið er í Seattle á ári hverju af Jamal Crawford og var Ragnari boðin þátttaka í ár.
„Það eru dómarar, þjálfarar og áhorfendur svo þetta eru alvöru leikir. Allur ágóði af þessu fer í góðgerðarstarfsemi svo Crawford fær oft einhverjar NBA stórstjörnur til að koma og spila.“ en hvernig kom þátttaka Ragnars á mótinu til?
„Eitt kvöldið þegar við vorum að spila var Crawford að horfa. Þetta kvöld var ég með Isaiah Thomas leikmanni Boston Celtics í liði og við unnum leikinn. Pétur fer að tala við Crawford og spyr bara hvað við þurfum að gera til að komast í mótið.“
„Crawford var hrifinn af því sem hann sá svo hann bauð mér að vera með. Á endanum var ég settur í það lið sem vantaði stórann mann. Þetta er vissulega ákveðinn gluggi. Það eru menn þarna að fylgjast með, maður veit aldrei hverjir eru að horfa.“
Ragnar spilar með Þór Þorlákshöfn í Dominos deild karla og undirbýr sig fyrir komandi tímabil.
„Ég kem líklega aftur heim í næstu viku. Þá er ég búinn að vera hér í rúman mánuð. Væntingarnar sem ég hafði var að fá æfingar og leiðbeiningar hjá Pétri til að verða betri. Eftir allt sem við höfum farið yfir er ég mjög ánægður.“
Draumur Ragnars er að sjálfsögðu að komast lengra í körfuboltanum en hann var eins og flestir vita partur af íslenska landsliðinu sem spilaði á Eurobasket síðasta sumar.
„Framtíðin er óskrifuð bók. Markmiðið er að komast lengra og sjá hversu langt körfubolti fer með mig.“ sagði Ragnar að lokum um möguleikana á að spila erlendis á næsta tímabili.
Hægt er að fylgjast með ævintýrum Ragga Nat á Snapchat undir raggi-bat.
Myndir / Tomasz Kolodziejski , Þorsteinn Eyþórsson, [email protected]
Viðtal / Ólafur Þór Jónsson