spot_img
HomeFréttirRannsókn: Tölfræði Íslendinga engu betri í 4+1 reglunni

Rannsókn: Tölfræði Íslendinga engu betri í 4+1 reglunni

Egill Egilsson leikmaður Fjölnis og Þorgrímur Guðni Björnsson fyrrum leikmaður Vals útskrifuðust á dögunum með B.sc gráðu í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík. Lokaverkefni þeirra í náminu hét „Greining á frammistöðu íslenskra leikmanna í efstu deild karla í 3+2 reglunni og 4+1 reglunni. Þar er átt við Dominos deild karla og var tölfræði síðustu ára greind með athyglisverðum niðurstöðum sem þeir gáfu góðfúslegt leyfi til að birta hér á síðunni.

 

 

Verkefnið greindi frammistöðu leikmanna á íslandsmótinu í körfuknattleik út frá reglum varðandi fjölda erlendra leikmanna í deildinni á árunum 2012-2016. Á tímabilinu 2012-2013 var 3+2 reglan í gildi en á árunum 2013-2016 hefur 4+1 reglan verið við lýði.

 

Þessar reglur hafa verið mjög umdeildar og kemur umræða upp á hverju ári um hana og eru miklar tilfinningar í umræðunni. Ein háværustu rökin fyrir 4+1 reglunni er að íslendingar í deildnni nái meiri framförum og spili betur. Niðurstöður þessarar rannsóknar áttu að gefa mynd af því hvort frammistaða íslenskra leikmanna sé tölfræðilega betri í 4+1 reglunni heldur en 3+2.

 

Þeir félagar notuðu tölfræði gagnagrunn KKÍ auk þess sem tekin voru viðtöl við fjóra þjálfara í efstu deild sem voru bæði af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

 

 

Árin 2012-2013 var 3+2 reglan og þá var höfuðborgarsvæðið með flesta erlenda leikmenn. Frá því 4+1 reglan var sett á hafa höfuðborgarliðin spilað mun færri erlendum leikmönnum að meðaltali í leik en landsbyggðarliðin. Niðurstöðurnar eru eftirtektarverðar:

 

Íslenskum leikmönnum sem spiluðu 10 mínútur eða meira að meðaltali í leik fjölgaði um rúmlega einn leikmann á þessum fjórum árum. Á sama tíma stendur stigaskor íslenskra leikmanna í stað. Íslenskir leikmenn skora því fleiri stig árið 2016 en 2013. Einar Árni þjálfari Þórs bendir á að ástæðan fyrir þessu gæti verið sú að íslensku leikmennirnir séu ekki endilega betri heldur séu fleiri leikmenn með stig.

 

Framlagsstig leikmanna (PER) hækkaði við reglubreytinguna en erlendir leikmenn hækkuðu mest á tímabilunum 2015 og 2016. PER hjá íslenskum leikmönnum hækkaði fyrstu tímabilin eftir að 4+1 reglan kom til en hefur lækkað aftur þessi tvö tímabil (2015-2016).

 

Ingi Þór Steinþórsson og Kári Maríasson tala báðir um að íslenskir leikmenn hafi ekki bætt sig í 4+1 reglunni og nefna að gæði æfinga og minni samkeppni geti verið helsta ástæðan. Kári sem hefur þjálfað Tindastól og leikið í efstu deild segir meðal annars þetta um gæði deildarinnar: „Kári Jónsson hjá Haukum, besti maður Haukanna í vetur. Hann er 18 ára gamall, mér finnst það persónulega, með fullri virðingu fyrir honum, segja meira um það hvaða deildin er slök en ekki hvað hann er góður.“

 

 

Í rannsókninni voru alls átta tölfræðiþættir skoðaðir. Í fjórum (stig, framlagsstig, skotnýting og skottilraunir) af þáttunum átta var þróunin á milli tímabila sú sama hjá íslenskum leikmönnum, þ.e. frammistaðan var slökust þegar 3+2 reglan (2013) var í gildi en best fyrsta ár 4+1 reglunnar (2014) og dalaði næstu tvö tímabil þar á eftir.

 

Allir tölfræðiþættir nema stoðsendingar og tapaðir boltar sýndu slakari tölfræði hjá íslenskum leikmönnum á þriðja ári 4+1 reglunnar en á fyrsta ári reglunnar. Erlendir leikmenn hafa verið að spila betur og betur eftir að 4+1 reglan var samþykkt sé tekið mið af stigaskori, framlagsstigum, skotnýtingu og fráköstum.

 

Þegar horft er til tölfræðinnar má sjá að liðin á landsbyggðinni eiga erfiðara uppdráttar og hefur hún dalað mest þar á þessum árum. Á sama tíma er höfuðborgarsvæðið að bæta sig jafnt og þétt í einstaka þáttum.

 

Erlendir leikmenn sem spila Íslendingar hafa séð sitt vægi aukast gífurlega síðan 4+1 reglan var sett á en tölfræðin sýnir að gæðin eru ekki í samræmi við þetta aukna vægi þeirra. Fleiri íslenskir leikmenn fá tækifæri en það skilar sér ekki í betri tölfræði hjá íslenskum leikmönnum í heild. Þrír af fjórum þjálfurum sem rætt var við voru sammála um að gæði deildarinnar væri ekki eins mikil eftir að 4+1 reglan var sett á.

 

Niðurstöður þessarar rannsóknar styðja þá kenningu því leikmenn sem eru að spila meira en áður skiluðu ekki betri tölfræði við þá aukningu á spiltíma. Tölfræði landsbyggðarinnar hefur dalað nokkuð og vægi erlendra leikmanna sem spila sem íslendingar hefur aukist í ósammræmi við gæði leikmannanna.

 

 

Rannsókn / Egill Egilsson og Þorgrímur Guðni Björnsson

 

Samantekt / Ólafur Þór Jónsson

 

Fréttir
- Auglýsing -