„Landsliðsæfingarnar ganga bara ljómandi,“ sagði Kristófer Acox í samtali við Karfan.is í dag en hann sat í sumarskóla hjá Furman í Bandaríkjunum til þess að ganga úr skugga um að hann ætti kost á því að leika fyrir íslenska landsliðið í forkeppni EuroBasket 2017. Eins og mörgum er kunnugt átti Kristófer ekki kost á því að vera með landsliðinu sumarið fyrir stóru átökin í Berlín á síðasta ári, nú er önnur saga í gangi en Kristófer á eitt skólaár eftir hjá Furman háskólanum.
„Ég missti náttúrlega af þessu í fyrra út af skólanum og átti síðan að vera þarna í allt sumar til að ná nokkrum aukaeiningum svo ég gæti útskrifast á réttum tíma. En ég tók maí, júní og júlí í þessu svo sumarskólanum er formlega lokið,“ sagði Kristófer og ekki laust við að hann væri nokkuð feginn enda í raun heilt ár að baki á námsbekk án pásu.
Kristófer setur markið á atvinnumennsku og leggur því mikið kapp á að komast í hópinn sem verður skorinn niður fyrir undankeppnina á morgun. Aðspurður um möguleika Íslands í þessari forkeppni kvaðst Kristófer bjartsýnn:
„Það er bókað, ég er bjartsýnn. Ég hef reyndar ekki mætt þessum löndum áður en ég tel að Belgía sé liðið „to beat“ ef ég sletti aðeins. Strákarnir spiluðu við þá í fyrra og mér skildist á strákunum að við hefðum „match-að“ frekar illa gegn Belgum. Ég hef samt fulla trú á íslenska liðinu og tel okkur eiga að geta náð í góða sigra bæði hér heima og úti.“
Það kemur svo í ljós á morgun hvort Kristófer hljóti náð fyrir augum landsliðsþjálfaranna en þá verður íslenski hópurinn skorinn niður í þann æfingahóp sem verður í forkeppninni.
Riðlarnir í forkeppni EuroBasket 2017