Undir 18 ára lið drengja tapaði fyrir Englandi, með 64 stigum gegn 70, fyrr í kvöld á Evrópumótinu. Leikurinn var í umspili um 9. til 16. sæti á mótinu og með tapinu er því ljóst að næst spilar liðið upp á 13. til 16. sæti.
Lið Englands mætti mun reiðubúnara til leiks, sigruðu fyrsta leikhlutann 8-19. Þeir héldu þeim mun svo til hálfleiks, en þá var staðan 22-35. Í byrjun seinni hálfleiksins sýndi íslenska liðið svo hvers það var megnugt og náði að gera þetta að leik fyrir lokaleikhlutann, 48-50. Nær komust þeir þó ekki í honum (munurinn mestur 10 stig undir lokin) og fór svo að þeir töpuðu með 6 stigum, 64-70.
Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Eyjólfur Ásberg Halldórsson, en hann skoraði 18 stig og tók 7 fráköst.
Næsti leikur liðsins er á morgun gegn heimamönnum í Makedóníu.