Guðlaug Björt Júlíusdóttir sem lék með liði Keflavíkur síðasta vetur mun halda til náms og kemur til með að vera í sama skóla og Valur Orri Valsson , Florida Institude of Technology. Guðlaug fer ekki til skólans á körfuboltastyrk þar sem hún kom aðeins og seint til þess en verður hinsvegar á námsstyrk þess í stað. "Ég fór í heimsókn til bróður mömmu sem býr þarna rétt hjá og ákvað að skoða þennan skóla. Ég hitti fyrir þjálfara liðsins sem tjáði mér að allir körfuboltastyrkir væru nú þegar úthlutaðir. En ég fæ hinsvegar námsstyrk í staðinn og verð með liðinu." sagði Guðlaug í samtali við Karfan.is
Guðlaug sleit barnskóm sínum í Njarðvíkinni en hélt þaðan til Grindavíkur og spilaði þar eitt tímabil. Þaðan fór hún til Keflavíkur þar sem hún spilaði síðasta tímabil eins og fyrr var sagt frá. Unnusti hennar, Jón Axel Guðmundsson heldur einnig til Bandaríkjana eins og líkast til flestir vita til að spila með Davidson háskólanum. "Davidson er í öðru fylki og því verða það klukkutíma flugferðir fyrir okkur til að hittast. En þetta er allt mjög spennandi og mig hlakkar til." sagði Guðlaug að lokum.