spot_img
HomeFréttirHlynur: Pólverjar voru með tökin á þessu

Hlynur: Pólverjar voru með tökin á þessu

Hlynur Bæringsson verður í borgaralegum klæðum á eftir þegar Ísland og Austurríki mætast á æfingamóti í Austurríki. Að þessu sinni eru það Hlynur og Jón Arnór Stefánsson sem hvíla en Hlynur fagnaði því að fá að sjá hina stóru leikmenn liðsins láta til sín taka.

„Það er gott að gefa þeim almennilegan séns,“ sagði Hlynur sem sagði frammistöðu Íslands í tapinu gegn Póllandi í gær hafa verið áæta.

„Við byrjuðum vel en misstum þá aðeins framúr okkur fyrir hálfleik. Það var smá klúður á „basic“ hlutum hjá okkur og við gáfum þeim auðveldar körfur. Pólverjar eru góðir og mér fannst þeir svolítið með leikinn. Við áttum smá séns en þeir höfðu tökin á þessu og við vonumst t.d. eftir því að „róteringarnar“ í vörninni verði sterkari í dag og í framhaldinu.“

Ísland mætir Austurríki kl. 16:00 að íslenskum tíma og Hlynur segir þá ekki vera á sama plani og Pólverjar og Slóvenar. „Þeir eru með þjálfara frá Litháen en þeir eiga ekki að vera á sama „leveli“ og hin tvö liðin, ég geri ráð fyrir að þeir séu þar fyrir neðan.“

Hvað lítur að undirbúningi Íslands fyrir undankeppni EuroBasket 2017 kvað Hlynur það hafa gengið fínt.

„Maður er nýkominn almennilega inn í þetta og við að koma okkur í gang. Það er margt mjög jákvætt og ég er mjög hrifinn af stóru strákunum okkar, Tryggva, Ragnari og Sigurði. Þeir líta allir vel út og andinn er góður sem gerir það gaman að spila boltann við svona réttar aðstæður. Við höfum aðeins rætt andstæðinga okkar í riðlakeppninni en fókusinn er ekki alveg kominn þangað enda rúmur hálfur mánuður í fyrstu leikina en við hugsum auðvitað um þetta.“

Nú stefnir í að Þórsarinn Tryggvi Snær Hlinason leiki sinn fyrsta A-landsleik, aðspurður um nýliðavígslur kvaðst Hlynur ekki aðdáandi þeirra.

„Það hefur engin vígsla farið fram ennþá, þetta eru ekki þessar rassskellingar eins og voru vinsælar. Ég vil bara hafa þessa stráka í þjónustustörfum, ná í kaffi og taka til. Mun fremur þannig en að berja þá á rassinn,“ sagði Hlynur léttur á manninn en hvernig var þetta í hans tíð?

„Ég held að ég hafi verið rassskelltur og látinn punga út fyrir öli en það er svo langt síðan, ég man þetta ekki almennilega.“

Þá er það víst orðinn munaður að ferðast á milli landa til að safna Pókemonum og íslenska landsliðið fer ekki varhluta af grimmum Pókemon-spilurum. „Ég er ekki að spila þetta, þessi leikur kostaði mig símann þar sem dóttir mín fór út með hann og braut skjáinn á símanum. En sumir strákarnir eru í þessu hérna og ganga hver á annan við að elta uppi einhvern Píkatjú. Annars nenni ég nú ekki að vera gamall karl sem setur út á eitthvað nýtt, þessi leikur er ekkert verri en eitthvað að þeim sem maður spilaði hér áður fyrr.“

Fréttir
- Auglýsing -