Fyrr í dag kunngerðu forráðamenn íslenska karlalandsliðsins liðsval sitt fyrir komandi undankeppni EuroBasket 2017. Ákveðið var að velja 14 leikmenn fyrir þessa 6 leiki sem framundan eru.
Fyrir ári síðan lék íslenska landsliðið eftirminnilega á Eurobasket í fyrsta skipti í sögunni. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Snemma var ljóst að Helgi Már Magnússon myndi hætta iðkun á íþróttinni fögru auk þess sem Jakob Sigurðarson staðfesti að landsliðsskórnir væru komnir á hilluna en það hafði legið í loftinu í nokkurn tíma.
Auk þess er Pavel Ermolinskij ekki í hópnum og í dag var ljóst að Ragnar Nathanaelsson yrði ekki valinn í landsliðshópinn. Inní liðið koma þeir Elvar Már Friðriksson, Brynjar Þór Björnsson, Kristofer Acox og Tryggvi Snær Hlinason.
Einhverjir myndu hugsa „þetta eru bara fjórar breytingar“. En fjórar breytingar á 12 manna hóp er ansi mikið og á einungis einu ári er búið að skipta um þriðjung landsliðshópsins.
Auðvitað geta alltaf orðið einhver kynslóðaskipti líkt og nú með brotthvarfi þeirra Jakobs og Helga Má. Óvæntu fréttir dagsins eru þó þær að Ragnar Nathanaelson er ekki valinn í hópinn, en hann á að baki marga landsleiki og var hluti af hópnum á Eurobasket.
Í hans stað er hinn 18 ára Tryggvi Snær Hlinason leikmaður Þórs Akureyrar í hópnum. Tryggvi á tvo landsleiki að baki auk þess sem hann hefur enn ekki spilað í efstu deild á Íslandi. Hann hefur spilað með Þór Ak í 1. deild síðustu ár en liðið tryggði sér í Dominos deildina á næsta ári.
Enn áhugaverðara er að hann virðist vera ofar í goggunarröðinni en Sigurður Þorsteinsson ef miðað er við það að Sigurður er utan hóps fyrir fyrsta leik gegn Sviss. Tryggvi er að sjálfsögðu framtíðarmaður í íslenska landsliðinu en hefði ekki verið eðlilegra að hafa mann með reynslu af landsliðinu og atvinnumennsku í hópnum fyrir þetta stóra verkefni?
Allir sem ekki eru tilfinningalausir eða illa gerðir fundu gríðarlega til með Brynjari Þór fyrir ári er hann rétt missti af sæti í Eurobasket hópnum eftir að hafa verið viðloðandi landsliðið í langan tíma. Það er því ákveðinn léttir að sjá hann aftur í hópnum og 130% klárt að hann mun leggja allt eftir á parketinu. Einnig eru gleðitíðindi að Kristofer Acox sé í hópnum að þessu sinni en hann gefur liðinu nýja vídd sem gæti reynst mikilvæg, sérstaklega gegn líkamlega sterku liði eins og Kýpur.
Í þessari törn sem framundan er verðum við vitni af einstöku afreki. Í leiknum gegn Belgíu í Antwerpen þann 7. september mun Hlynur Bæringsson spila sinn 100 landsleik. Fyrsti leikur Hlyns var árið 2000 gegn Makedóníu en hann hefur ákveðið að taka slaginn með íslenska landsliðinu fyrir Eurobasket 2017.
Aðalmálið er þó að mikilvægt er að íslendingar allir fjölmenni í Laugardalshöll á leikinn gegn Sviss en það er algjör skyldusigur fyrir íslenska liðið ætli það sér að gera alvöru atlögu að Eurobasket.
Karfan.is mun að sjálfsögðu gera undankeppninni góð skil, auk leikjanna hér heima munum við fylgja með í ferðalaginu til Kýpur, Belgíu og Sviss. Þaðan flytjum við helstu fréttir um stöðuna á liðinu og fjöllum um leikina.
Landsliðshópinn í heild má finna hér auk þess sem viðtöl við leikmenn og þjálfara af blaðamannafundi dagsins birtast seinna í dag.
Ólafur Þór Jónsson