spot_img
HomeFréttirLeiðin að Eurobasket hefst í kvöld

Leiðin að Eurobasket hefst í kvöld

Undankeppni evrópumóts landsliða hefst í kvöld er Ísland tekur á móti Sviss í A-riðli keppninnar. Leikurinn fer fram í Laugardalshöllinni kl 19:30 og er krafan ekkert annað en sigur.

 

Íslenska liðið verður að byrja þennan riðil á heimasigri en auk Íslands og Sviss eru Kýpur og Belgía í riðlinum. Fyrirfram má telja að Belgía sé sterkasta liðið í riðlinum en fyrsta sæti tryggir þáttöku á Eurobasket á næsta ári en liðin með besta árangurinn í öðru sæti komast einnig þangað.

 

Sviss er eitt af elstu landsliðum í körfubolta í heimi. Þeir eru eitt af átta stofnþjóðum FIBA og komst á fyrstu árum þess á Eurobasket og ólympíuleika til ársins 1955 en svo ekki sögunni meir.

 

Sviss vann sterkan sigur á Rússlandi í undankeppni Eurobasket 2015 og er því ljóst að um verðugan andstæðing er að ræða. Liðið er sem stendur í 94 sæti á styrkleikalista FIBA en Ísland í því 81.

 

Leikurinn er einnig sá síðasti áður en landsliðið leggur í tíu daga keppnisferðalag þar sem liðið spilar alla útileikina í keppninni í einum rykk. Mikilvægt verður því að taka sigur í ferðanesti á fríhöfnina er liðið flýgur til Kýpur.

 

Í fjórtán manna hóp Sviss eru tólf sem spila í svissnesku deildinni en bakvörðurinn Jonathan Kazadi spilar í frönsku B-deildinni með Entente Orleans og er þeirra lykilmaður. NBA leikmennirnir Clint Capela og Thabo Sefolosha eru ekki með liðinu í þetta skipti.

 

Þjálfari liðsins er fyrrum aðstoðarþjálfari Alba Berlin, Petar Aleksic sem einnig þjálfar svissnesku meistarana í Fribourg Olympics. Útileikurinn gegn Sviss fer einmitt fram á heimavelli þeirra í borginni Friborg þann 10. september.

 

Miðasala á leikinn gegn Sviss fer fram á Tix.is. Hvetjum við alla þá sem vettlingi geta valdið að mæta og styðja íslenska landsliðið til sigurs.

 

Frétt / Ólafur Þór Jónsson

 

Mynd / Þorsteinn Eyþórsson á leik Íslands og Bosníu 2014.

 

Fréttir
- Auglýsing -