Íslenska landsliðið etur kappi við Kýpur í undankeppni evrópumótsins á laugardag í Nicosia. Leikurinn er annar leikur Íslands á mótinu og gæti reynst griðarlega mikilvægur.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ísland mætir Kýpur, liðin hafa margoft mæst á Smáþjóðaleikunum og er eftirminnileg viðureign liðanna árið 2007. Liðin mættust þá í hreinum úrslitaleik en vegna ósigurs Kýpur á Lúxemburg þurfti liðið að vinna Ísland með sautján stigum eða meira til að ná gullinu.
Verkefnið hafði gengið ágætlega en þegar ein og hálf mínúta var eftir tókst Íslandi að saxa muninn niður í 6 stig. Þar með var von Kýpur að fjara út og breyttu þeir leiknum í hálfgert stríðástand. Það hófst með því að leikmaður Kýpur sendi íslenska liðinu og áhorfendum fingurinn samkvæmt Guðmundi Hilmarssyni sem skrifaði um leikinn fyrir Morgunblaðið.
Upp hófust slagsmál þar sem leikmenn Kýpur lömdu meðal annars þá Brenton Birmingham, Magnús Þór Gunnarsson og fleiri leikmenn. Þá veittust þeir að dómara leiksins og náðu honum í gólfið líkt og í Júdó.
Dómarar leiksins og eftirlitsmaður FIBA ákváðu strax að leik skildi hætt og dæmdu Íslandi 2-0 sigur. Kýpur var sparkað úr keppni og fékk engin verðlaun.
Íslenska liðið þurfti lögreglufylgd út í rútu þar sem þeir voru keyrðir frá íþróttahöllinni. Auk þess var ekki hægt að halda hefðbundna verðlaunaafhendingu vegna látanna og var því gripið til þess að Albert Prins af Mónakó afhendi Ólafi Rafnssyni heitnum alla verðlaunapeningana. Við landamæri Mónakó og Frakklands var rúta liðsins stoppuð og liðinu veitt viðurkenning auk þess sem íslenski hópurinn söng þjóðsönginn.
Bæði Sigurður Ingimundarson þáverandi þjálfari Íslands og Friðrik Ingi hrósuðu íslenska liðinu fyrir að láta ekki hafa sig út í þessa vitleysu og koma sér í burtu sem fyrst.
„Það kom ekki öll þessi atburðarrás mér á óvart vegna þess að ég hef á síðustu smáþjóðaleikum orðið vitni að framgangi Kýpurmannanna. Þeir eru blóðheitir og lítið þarf að bregða út af svo þeir verði kolvitlausir. Ég átti nú samt aldrei von á neinu í líkingu við þetta.“ sagði Friðrik Ingi við Morgunblaðið eftir leikinn.
Þrír leikmenn eru í landsliðshópnum í dag sem léku þennan leik, þeir Brynjar Þór Björnsson, Logi Gunnarsson auk þess sem Hörður Axel Vilhjálmsson var að leika sína fyrstu leiki.
Heimild / Morgunblaðið 10. júní 2007.
Mynd / KKÍ – myndin er frá 2006