spot_img
HomeFréttirBless, bless Kýpur

Bless, bless Kýpur

 

Ólafur Þór Jónsson skrifar frá Nicosia

Ferðalagið til Belgíu er hafið. Við kveðjum Kýpur með litlum trega og sigur í handfarangri. Nicosia fer ekki í sögubækurnar sem fallegasta borg evrópu en hún hafði ýmislegt með sér sem ég myndi fara nánar í ef ég væri bara með ferðablogg.

 

Leikurinn í gær var fyrsti alvöru heimaleikur Kýpur í nokkurn tíma þar sem liðið var lagt tímabundið niður fyrir nokkru vegna fjárhagsvandræða. Fyrir vikið klóra ég mér í hausnum yfir dapri umgjörð og standard þarna.

 

Leikið var í höll sem tók rúmlega 6000 manns í sæti og var að mörgu leiti mjög fín. Hún var hinsvegar verulega skítug og lítið gert fyrir hana í aðdraganda leiksins.

 

Frítt var inn völlinn og var því trú mín að höllin yrði full og smá læti. Sú var aldeilis ekki raunin, þar sem líklega 400-500 manns voru í húsinu og einhver hluti af þeim skólahópar.  Taka verður hattinn ofan fyrir þeim sex íslensku áhorfendum sem voru mætt í Eleftheria höllina í gær til að styðja sitt lið. Það heyrðist meiri stuðningur frá þeim heldur enn kýpverjunum í höllinni.

 

Þessi aðbúnaður og áhugaleysi leiðir huga manns að því þegar okkar íslensku lið þurftu að dragan saman seglin vegna skorts á peningum. Þá tók liðið einmitt ekki þátt í evrópukeppnum í nærri tvö ár. Auðvelt hefði verið að glutra áhuganum niður eins og í Kýpur þegar liðið fór af stað en svo var ekki.

 

I stað þess tryggði karla liðið sér á Eurobasket 2015 auk þess sem liðið hefur nú þegar unnið sterka sigra í undankeppninni fyrir næsta mót. Þá er kvennalandsliðið á mikilli uppleið og hefur náð í góð úrslit gegn sterkum þjóðum. Það verður því að gefa körfuknattleikshreyfingunni hrós fyrir að hafa haldið vel á spöðunum eftir þunga ákvörðun árið 2010.

 

Það er ekki hægt að skrifa svo pistil án þess að nefna hlut Martins Hermannssonar í þessum fyrstu tvem leikjum í undankeppninni. Varnarleikur hans hefur tekið gríðarlegum framförum og munaði mikið um það í leiknum gegn Sviss. Í gær gegn Kýpur steig hann svo upp í fjarveru Jón Arnórs og setti stórar körfur þegar Ísland náði forystunni í þriðja leikhluta.

 

Martin hefur hægt og rólega verið að vinna sér inn þetta byrjunarliðssæti í liðinu en hann var auðvitað í hóp á Eurobasket í fyrra en þá í aukahlutverki. Framfarir hans og þróun sem leikmaður er eitthvað sem yngri leikmenn ættu að fylgjast með og taka til fyrirmyndar.

 

Framundan er leikur gegn Belgíu sem vann heldur ósannfærandi sigur á Sviss í gær. Það verður erfitt verkefni en alls ekki ómögulegt, meira um það síðar.

 

Fréttir
- Auglýsing -