Landsliðið er þessa stundina í Belgíu þar sem undirbúningur fyrir leikinn gegn heimamönnum er í fullum gangi. Leikurinn fer fram á miðvikudaginn kl 18:00 að íslenskum tíma og er sýndur í beinni á RÚV 2.
Fleiru er að fagna en komunni til Belgíu en leikjahæsti leikmaður hópsins Logi Gunnarsson á afmæli í dag. Logi er 35 ára í dag en hefur engu gleymt.
Logi Gunnarsson er uppalinn Njarðvíkingur og eins og flestir vita spilar með Njarðvík í Dominos deildinni. Auk þess lék hann sem atvinnumaður í tíu ár á Spáni, Frakklandi, Þýskalandi, Finnlandi og Svíþjóð.
Logi hóf landsliðsferil sinn árið 2000 og hefur á undanförnum 16 árum leikið 125 landsleiki. Hann er leikjahæsti núverandi leikmaður landsliðsins og sá 5. leikjahæsti í sögu KKÍ. Leikjahæstur er Guðmundur Bragason með 169 leiki.
Karfan.is óskar Loga til hamingju með daginn.