Afmælisbarn dagsins Logi Gunnarsson varð 35 ára í dag og framundan er 126 landsleikur hans fyrir Íslands hönd. Að þessu tilefni náði Karfan.is á Loga og fékk að fara á hundavaði yfir upphaf landsliðsferilsins og verkefnin framundan.
Logi lék sinn fyrsta landsleik gegn Noregi á Norðurlandamótinu árið 2000. Leikið var í Keflavík en þetta mót er mjög eftirminnilegt í minnum körfuboltafólks.
„Það var rosa spennandi að vera svona ungur og fá að komast í A-landsliðið. Sérstaklega að fá að gera það með svona félögum eins og Jón Arnóri og Jakobi (Sigurðssyni). Þarna spilaði maður með mörgum kempunum sem maður horfði á þegar maður var gutti.“ sagði Logi
Ísland tefldi fram tvem liðum þetta árið, A-landsliði og svokölluðu Elítuliði þar sem yngir leikmenn voru valdir. Elítan vann innbyrgðisleik liðanna og hafa landsliðsmenn fengið að heyra af því síðustu árin.
„Við þrír sem vorum ungir létum þetta ekki mikið fara í taugarnar á sér þar sem við vorum valdir á undan hinum í A-landsliðið. Þetta fór meira í eldri leikmennina við sem yngri vorum létum þetta ekki fara mikið í okkur.“
„Okkur gekk vel á þessu móti og áttum góða leiki, unnum Svía og Finna sem voru framar en við á þessum á þessum tíma.“
Sextán árum síðar er Logi enn á ferðinni og það í undankeppni Eurobasket 2017 sem var fjarlægur draumur þegar Logi hóf að spila með landsliðinu.
„Standardinn hefur hækkað og gæði körfuboltans hafa breyst frá því ég byrjaði. Við höfum svo margir verið að spila erlendis lengi. Með fullri virðingu fyrir því hvernig þetta var á sínum tíma en þá voru bara ekki svo margir sem voru fullatvinnumenn.“
„Við þrír (Logi, Jón og Jakob) vorum þeir fyrstu af þessari kynslóð ásamt Hlyni Bæringssyni og Örlygi Sturlusyni sem var kjarninn í liðinu í mörg ár og á tímabili var allt liðið í atvinnumennsku. Það gerði gæfumuninn að hafa verið saman svona lengi og verið atvinnumenn í íþróttinni.“
Guðmundur Bragason er leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi með 169 leiki. Logi þarf að leika 44 leiki í viðbót til að ná því, sér Logi fram á að ná því meti?
„Ég þyrfti að teygja mig ansi langt í það en maður veit aldrei. Þetta eru rúmlega 60 ferðalög með landsliðinu á 16 árum.“
„Ég fæ ekki nóg af þessu, ég hef svo mikinn áhuga á þessu og hef svo gaman að þessu og það er ákveðin áskorun að halda mér í formi til að halda í við þessa yngri leikmenn. Einnig að fá að spila á móti bestu liðum í evrópu og geta verið að þessu að þessum krafti sem ég er á núna drífur mig áfram.“
Logi fagnar 35 ára afmæli í dag en hann er aldursforseti liðsins. Hann er 17 árum eldri en yngsti leikmaður liðsins Tryggvi Hlinason.
„Ég finn ekki fyrir því að vera elstur í þessu liði. Við höfum veriðað spila lengi saman þessi kjarni og svo hafa bæst við síðustu ár. Sumir þeirra eru meira að segja komnir nálægt þrítugt núna eins og Hörður Axel sem var ungur að koma inní þetta fyrir nokkrum árum.
„Þetta eru blandaðar kynslóðir og mér finnst ég ná svo vel til þeirra allra að ég finn ekkert fyrir því að vera eitthvað eldri en þessir strákar. Ég spilaði með feðrum þeirra nokkram svo sem Hermanni Haukssyni (pabba Martins) og Friðriki Rangarssyni (pabba Elvars), þannig ég finn ekki fyrir aldrinum ég bara nýt þess í botn.“
Landsliðið er nú í dauðafæri að tryggja sér þátttöku á Eurobasket 2017 annað skiptið í röð. Framundan er leikur gegn Belgíu sem gæti reynst úrslitaleikur riðilsins.
„Lýst vel á möguleikana. Það skín núna í gegn hversu vel þjálfaður þessi kjarni er sem lið og erum komin á þann stað að vera gott evrópskt körfuboltalið sem hefur ekki verið áður.
„Maður fer inná völinn með þá trú að ætla að vinna öllu lið. Það var ekkert alltaf svoleiðis, auðvitað vonaðist maður áður til að eiga séns en þannig var það ekki. Núna förum við í alla leiki og vitum að við getum unnið, við getum verið stolt af því. Nú eigum við góða möguleika á að ná langt og endurtekið leikinn, komist á Eurobasket 2017.“
Viðtal / Ólafur Þór Jónsson