spot_img
HomeFréttirFormaður KKÍ: Þátttaka á Eurobasket 2017 festir okkur í sessi

Formaður KKÍ: Þátttaka á Eurobasket 2017 festir okkur í sessi

Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands er mættur til Antwerpen þar sem hann mun vera viðstaddur leik landsliðsins gegn Belgíu á miðvikudag.

 

Karfan.is náði tali af Hannesi við komuna og spurði um Eurobasket og uppgang körfuboltans á Íslandi.

 

„Þetta lítur ágætlega út.“ sagði Hannes um árangur landsliðsins hingað til en liðið er búið að vinna fyrstu tvo leikina í riðlinum.

 

„Má segja að við séum búin að taka tvo af þeim sex skrefum sem þarf til að komast inná Eurobasket en erum langt frá því að vera komnir í þá stöðu að vera rólegir yfir þessu. Klárt mál að við erum að stefna í rétta átt. Stefnan er skýr, það er Eurobasket á næsta ári og við erum að vinna að því áfram.“

 

Andstæðingar Íslands í síðasta leik voru kýpverjar sem eru nú að hefja leik aftur eftir að hafa ekki tekið þátt í neinni keppni vegna fjárhagsvandræða. Ísland þurfti einnig að taka slíka ákvörðun 2010 þegar liðið tók ekki þátt í evrópukeppni í tvö ár.

 

„Maður lítur oft aftur þegar við vorum að taka þessar leiðilegu ákvarðanir. Þetta var erfitt en ég held að allir hafi haldið rétt á spöðunum. Við megum samt ekki gleyma okkur, hvort sem það eru leikmenn, stjórn, afreksnefnd eða allir í kringum liðið.“ sagði Hannes um uppganginn eftir þessa pásu.

 

„Íþróttahreyfingin á Íslandi var einhuga um stíga þetta skref þegar við tókum upp þráðinn aftur eftir þessa stuttu pásu. Það er að bæta í á öllum sviðum, ég vill meina að það sé skila þessum árangri. Þetta er allt annað umhverfi sem leikmenn eru í dag heldur en fyrir nokkrum árum.“

 

„Í dag eru fleiri sem koma að liðinu, styrktarþjálfari, sjúkraþjálfari og afreksnefndir svo eitthvað sé nefnt. Þetta er allt miklu stærra en við þurfum að hafa í huga að við getum alltaf bætt okkur. Gott að muna að geta gert betur og langar að gera það og næsta skrefið þar er að komast aftur á Eurobasket.“

 

Miklar breytingar eru framundan á fyrirkomulagi heims-og evrópukeppnanna í körfubolta og gætu næstu leikir ráðið miklu um tækifæri Íslands á þeim sviðum næstu árin.

 

„Eurobasket verður á fjögurra ára fresti eftir 2017 og HM á fjögurra ára fresti. Með því að komast inná Eurobasket 2017 erum við örugg að spila um sæti á HM 2019. Ef við náum aftur á Eurobasket aftur þá festum við okkur nokkuð í sessi með þessum 24 bestu þjóðum í evrópu sem gerir okkur kleift að taka þátt í efri hluta undankeppninni fyrir HM.“

 

Framundan er leikur gegn Belgíu sem fyrirfram er talið sterkasta liðið í A riðli.

 

„Ég met möguleikana ágætlega fyrir okkur í leiknum gegn Belgíu. Við erum á réttu róli og á þeim stað sem við ætluðum að vera þegar við kæmum til Belgíu. Ég er yfirleitt frekar svartsýnn fyrir leiki en ég held við höfum allt til að ná góðum úrslitum.“

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -