spot_img
HomeFréttirHeim með einn sigur í handfarangri - Markmiðið enn skýrt

Heim með einn sigur í handfarangri – Markmiðið enn skýrt

Ólafur Þór Jónsson skrifar frá Genf

 

Þrem útileikjum er nú lokið hjá íslenska landsliðinu og er ferðalagið til Íslands hafið. Uppskeran ákveðin vonbrigði enda fer liðið heim með tvö töp á bakinu gegn Belgíu og Sviss.

Fyrirfram mátti búast við tapi gegn Belgíu, liðið átti hinsvegar ágætis fyrri hálfleik og þar sáum við að íslenska liðið getur vel unnið leik gegn Belgíu.

 

Leikurinn gegn Sviss svíður meira enda sýndi liðið dapra frammistöðu gegn liði sem Ísland á að vinna. Varnarleikur liðsins var mjög ólíkur því sem sést hefur og vantaði allan eldmóð og ákefð sem hefur einkennt liðið síðustu ár.

 

Það er hinsvegar eftirtektarvert að þrátt fyrir þetta litla skref aftur í leið Ísland að Eurobasket að leikmenn hafa greinilega ekki misst sjónar af markmiðinu. Framundan eru heimaleikir gegn Kýpur og Sviss, sem einfaldlega þarf að vinna. Í viðtölum eftir leik í gær sögðu allir leikmenn, „við vinnum þessa leiki“.

 

Á síðustu tíu dögum hefur liðið farið í sex flug og margar misgóðar rútuferðir. Mikill tími hefur því farið í ferðalög um alla evrópu og við mismunandi aðstæður. Síðustu daga hafa svo þrír leikmenn liðsins fengið flensu og steinlegið. Ægir missti af leiknum í gær og Hörður Axel var einfaldlega ekki í sínu besta standi. Auk þess hefur Jón Arnór auðvitað verið meiddur auk annarra smávægilegra meiðsla sem koma upp þegar leikið er svo þétt.

 

Allt hefur þetta áhrif og það sást í gær að leikmenn voru andlega og líkamlega þreyttir þrátt fyrir að það sé engin afsökun.

 

Að ferðalokum er haldið heim til Íslands. Framundan eru tveir stórir leikir sem hafa algjört úrslitavald um þátttöku Íslands á Eurobasket 2017. Þátttaka á Eurobasket hefur einnig mikil áhrif á möguleika Íslands til að komast á heimsmeistaramótið og þá verður Eurobasket ekki aftur fyrr en 2021. Það er því einföld krafa til íslendinga að Laugardalshöllin verði stútfull á þessum tvem leikjum. Okkar menn eiga það skilið eftir það sem þeir hafa lagt á sig.

 

Fréttir
- Auglýsing -