Miðherjinn Grétar Ingi Erlendsson verður ekki með Þór Þorlákshöfn í fyrsta leik liðsins í Domino´s-deild karla þegar Þórsarar mæta til Grindavíkur í heimsókn.
Grétar Ingi brotnaði á þumalfingur á æfingu með Þórsliðinu á dögunum og missir af þessum fyrsta leik hið minnsta.
„Þetta gerðist bara á æfingu fyrir um það bil tveimur vikum. Ég verð eitthvað frá en ekki alveg vitað hve lengi,“ sagði Grétar í samtali við Karfan.is sem var á leið í sniðskot á æfingu þegar slegið var í fingur hans.
Annar deildarleikur Þórs verður í Icelandic Glacial Höllinni þann 14. október þegar Keflavík kemur í heimsókn og mun Grétar vísast reyna að ná þeim leik ef hægt verður.