spot_img
HomeFréttirKristinn Marínósson ennþá leikmaður Hauka

Kristinn Marínósson ennþá leikmaður Hauka

 

Það má vera að leikmaður ÍR, Kristinn Marínósson, verði ekki með liðinu í fyrsta leik mótsins gegn Snæfell á morgun. Einhver ágreiningur virðist hafa verið uppi á milli gamla liðs hans, Hauka og þess nýja, ÍR vegna kaupverðs og samningsstöðu Kristins.

 

Að sögn þjálfara Hauka, Ívars Ásgrímssonar, er Kristinn á samning út þetta tímabil hjá Hafnarfjarðarfélaginu og að þegar að hann hafi ákveðið að fara yfir í Breiðholtið hafi verið sett lágmarksverð á leikmanninn fyrir ÍR til þess að ganga frá skiptunum, þar sem að þeir hafi verið að bjóða samningsbundnum leikmanni samning hjá sér. Það hafi hinsvegar ekki verið greitt, svo að leikmaðurinn sé í raun ennþá skráður leikmaður þeirra. Ívar er ekki ánægður með framkomu ÍR í málinu:

 

„Teljum mjög óeðlilega af öllu staðið hjá ÍR og finnst ekki eðlilegt að menn sendi á fjölmiðla að þeir hafi skrifað undir samning við leikmann sem er samningsbundinn öðru félagi.“ ÍR tilkynnti þann 14. júlí að Kristinn Marínósson hefði samið við félagið.

 

Haukar hafa í sumar einnig staðið í samningaviðræðum við Breiðblik vegna samnings sem liðið gerði við Breka Gylfason í sumar en hann var einnig samningsbundinn Breiðablik. Samningar munu hafa náðst á milli félagana núna.

 

Kristján Pétur Andrésson formaður körfuknattleiksdeildar ÍR hefur allt aðra sögu að segja. Kristinn Marínósson mun hafa skrifað undir tveggja ára samning við Hauka fyrir síðasta tímabil. Í viðauka við samninginn var mælt fyrir um að við félagaskipti að frumkvæði leikmanns yrði greitt allt að ákveðinni fjárhæð og skyldi fjárhæðin taka mið af greiðslum til leikmannsins á samningstímanum.

 

„Þegar við urðum þess varir að staðan væri þessi buðum við Haukum hálfa fjárhæðina enda var samningur leikmannsins hálfnaður. Við litum svo á að þessi greiðsla væri sanngjörn og í samræmi við samninginn. Haukar vildu þá fá 100.000 kr. í viðbót auk þess sem leikmanninum yrði alltaf heimilt að snúa aftur til Hauka gegn endurgreiðslu að tiltölu.“

 

„Við gátum ekki sætt okkur við þetta svokallaða tilboð. Í framhaldinu rifti leikmaðurinn samningi sínum við Hauka vegna vanefnda á samningnum. Eftir að hafa skoðað málið vorum við af ýmsum ástæðum þeirrar skoðunar að samningurinn kæmi ekki í veg fyrir að leikmaðurinn gengi til samninga við ÍR en þar litum við m.a. til riftunarinnar.“

 

Ágreiningur félaganna er kominn á borð til KKÍ sem mun væntanlega úrskurða um þetta mál á næstu dögum. ÍR spilar sinn fyrsta leik í kvöld gegn Snæfell og á eftir að koma í ljós hvort Kristinn megi spila þann leik eða verði enn skráður leikmaður Hauka er Dominos deild karla hefst.

 

Frétt / Davíð Eldur og Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -