Keflavík sigraði Hauka 73-52 í þriðju umferð Dominos deildar kvenna í kvöld. Fyrir leikinn voru bæði lið með sama árangur í deildinni til þessa, einn sigur og eitt tap.
Líkt
Liðin tvö sem mættust í kvöld eru að mörgu leyti lík. Ekki endilega í leikstíl eða útliti. Kannski frekar að því leyti að bæði hafa liðin verið stjörnum prýdd og við eða á toppi deildarinnar síðasta áratug. Nokkuð önnur annað virðist uppi á teningnum hjá þeim þetta tímabilið, þar sem að bæði lið hafa kosið að treysta á að yngri leikmenn þeirra geri gott mót í vetur.
Frá miðju
Leikmaður Keflavíkur, Katla Rún Garðrsdóttir, gerði vel í lok 1. leikhlutans þegar að hún geystist upp völlin og smellti boltanum niður frá miðju á sama tíma og tíminn rann út. Setti stöðuna þar með í 22-14 fyrir annan leikhlutann.
Lekinn
Stöðva þurfti leik í TM-Höllinni vegna leka í þakinu, en sökum rigninga myndaðist pollur við þriggja stiga línu Hauka í fjórða leikhlutanum. Heimamenn voru þó fljótir að fljótir að finna lausn á því. Fundu starfsmann til þess að fylgjast með og þurrka pollinn þegar að leikið var hinumegin á vellinum.
Pressan
Þjálfari Keflavíkur, Sverrir Þór Sverrisson, var líklegast best þekktur fyrir það að vera einn besti varnarmaður sinnar kynslóðar í efstu deild hér á landi. Einhverja af þeirri þekkingu hefur honum tekist að miðla til líðs síns. Því að vörnin sem að þær spiluðu í kvöld var frábær. Þær pressuðu hátt allan leikinn og á endanum uppskáru. Héldu Haukum í aðeins 52 stigum.
Þáttaskil
Þó legið hefði í loftinu mest allan leikinn að Keflavík setti í fluggírinn, þá gerðist það ekki fyrr en í byrjun fjórða leikhlutans. Byrja hlutann á 11-2 áhlaupi og gera að mestu út um leikinn. Þegar að 4 mínútur eru eftir eru þær 23 stigum yfir og svo gott sem búnar að klára leikinn.
Skotnýting
Himinn og haf var á milli þess hversu vel liðin náðu að skjóta boltanum í kvöld. Sérstaklega þá í þriggja stiga skotum. Keflavík hitti úr 11 af 29 skotum eða 37% á meðan að hjá Haukum var það 1 af 9 eða um 9%.
Hetjan
Emelía Ósk Gunnarsdóttir var besti leikmaðurinn í annars mjög jöfnu Keflavíkurliði í kvöld. Hún skoraði 17 stig, tók 7 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 2 boltum á þeim 28 mínútum sem hún spilaði.