Njarðvík nældi í sinn annan sigur í kvöld í Dominos deild kvenna þegar þær sigruðu verðskuldað lið Stjörnunar sem fyrir leik var taplaust eftir tvær umferðir. 86:78 varð lokastaða kvöldsins en Njarðvík leiddi í hálfleik með 5 stigum.
Þáttaskil:
Það eru kannski engin sérstök þáttaskil í þessum leik. Jafnt var framan af leik og Njarðvík náðu svo þessari 4 stiga foryst í fyrri hálfleik sem þær náðu að halda til loka leiks þrátt fyrir góð áhlaup Stjörnunnar. Á tímum hinsvegar á lokakaflanum fannst manni líkt og forystan væri mjög brothætt og byrjað var að tæmast á tanki Carmen Tyson Thomas sem leiðir liðið að öllu jöfnu. En liðið spilaði gríðarlega vel og barðist fyrir öllu sínu. Stjarnan var hinsvegar aldrei langt undan og sigur heimasæta úr Njarðvík líkast til komið flestum nema sjálfum þeim á óvart.
Skiptingin:
Sigurbaldur Frímannsson dómari hóf þennan leik en sökum meiðsla náði hann ekki að klára og í háflleik þurfti að bregða á það ráð að "hringja í vin". Jón Guðmundsson dómari úr Keflavík sat uppí stúku á leik Keflavíkur og Hauka með popp og kók þegar hann fékk hringingu og var mættur í Ljónagryfjunna 10 mínútum síðar að klára leikinn.
Tölfræðin lýgur ekki:
Carmen Tyson Thomas skilaði hinni heilögu þrennu í hús þetta kvöldið með 37 stigum, 12 fráköstum og 10 stoðsendingum og í raun daðraði við fernuna með 7 stolnum boltum. Slík frammistaða skilar liðinu langt en ekki má gleyma að restin af liðinu var einnig að hitta vel úr sínum færum. Danielle Rodriquez erlendum leikmaður Stjörnunar er skotmaður mikill en hinsvegar náði ekki að setja eitt einasta þriggjastiga skot niður þetta kvöldið. Þriggjastiga nýting liðsins í kvöld var í heildina slök þar sem aðeins 7 fóru niður af 36 tilraunum.
Hetjan:
Auðvelt væri að setja þetta á Carmen Tyson Thomas og við gerum það! Carmen skilar þrennu og daðrar við fernu, hinsvegar sér hún ekki bara um að skora stig liðsins því hún er öflugur liðsmaður sem drífur lið sitt áfram með hrósi og stemmningu sem smitar út frá sér til liðsfélaga hennar.
Kjarninn:
Njarðvík gerði vel í kvöld og barðist hart sem fyrr segir. Fyrir mót var liðinu spáð falli en nú þegar hafa þær hirt tvo sigra úr fyrstu þremur umferðunum. Róður þeirra mun hinsvegar þyngjast þegar á líður og án þess að saka Val eða Stjörnuna um vanmat á liðinu þá munu önnur lið nú koma til með að koma með ákveðnara hugarfar í Ljónagryfjuna. Þá sjáum við fljótlega úr hverju þetta Njarðvíkurlið er byggt og ef dæma má frá leiknum í kvöld ættu lið að taka þeim alvarlega því þær eru ekki komnar í Dominosdeildina bara til að vera með.