Breiðablik beið lægri hlut fyrir Val í kvöld í Smáranum, 96-105, í 1. deild karla, eftir að staðan hafði verið 43-44 í hálfleik, gestunum í vil. Hlíðarendapiltar fara því vel af stað í næst efstu deild og hafa unnið báða leiki sína en Blikar eru með einn tapleik úr þremur viðureignum.
Það voru hoggin skörð í bæði lið í kvöld; Blikar söknuðu Þrastar Kristinssonar og Ragnars Jósefs sem eru meiddir og Valsmenn léku án erlends leikmanns sem enn hefur ekki fengið leikheimild fyrir þá rauðklæddu. Þá leik Leifur Steinn sinn fyrsta leik fyrir Blika en hann var áður í herbúðum Hlíðarendapilta.
Byrjunarlið Blika var Bjarni Geir, Birkir, bræðurnir Egill og Snorri og Tyrone. Hjá Valsmönnum hófu leik Benedikt B., Sigurður Dagur, Illugi S, Illugi A og Austin Bracey. Sveinar séra Friðriks byrjuðu leikinn af fítonskrafti og náðu 2-11 forystu og öngvu líkara en að heimamenn væru ekki alveg tilbúnir í slaginn. Eyjólfur hressist hjá heimamönnum og náðu þeir að klóra í hinn margfræga bakka en tókst þó ekki að vera í forystu eftir 10 mínútna leik, þar sem Birgir Pétursson Valsari skoraði magnaða flautukörfu og breytti stöðunni úr 22-21 í 22-24, Valsmönnum í hag.
Í upphafi 2. leikhluta höfðu Valsarar tögl og hagldir og náðu 11 stiga forystu, 25-36 eftir tæplega 5 mínútna leik. Hlíðarendapiltar léku vel á þessum kafla, létu boltann ganga vel í sókninni og voru svo grimmir á hinum enda vallarins. Blikar lögðu ekki árar í bát heldur tókst að saxa á forskot gestanna jafnt og þétt. Staðan breyttist hægt og bítandi í 43-44, Val í vil, þegar dómararnir geðþekku, Gunnlaugur og Hákon, blésu í flautur sínar og buðu í te í hálfleik. Nema hvað. Ágætis fyrri hálfleikur að baki og spennan í algleymingi.
Heimamenn komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og náðu ágætri rispu. Það var annars einkennandi á leik Kópavogspilta að þeir náðu léttum og góðum sprettum af og til í leiknum en duttu niður þess á milli. Blikar leiddu lítillega 50-46 og svo aftur 55-51. Þá sögðu gestirnir hingað og ekki lengra og tóku við forystukeflinu og náðu muninum upp í 7 stig á tímabili 62-69. Tyrone Bliki minnkaði muninn í 65-69 rétt í lok 3. leikhluta en pilturinn sá fór algjörlega hamförum í síðari hálfleik og lauk leik með 43 stig og 9 stolna bolta. Maður lifandi!
Í 4. leikhluta náðu Valsmenn ávallt að hafa yfirhöndina og stóðust öll áhlaup Breiðabliks. Piltar tveir frá Hlíðarenda, Benedikt B og Austin Bracey, skemmtu sér fyrir utan 3ja stiga línuna og voru í stuði. Téður Tyrone Bliki hélt áfram að gera Valsmönnum skráveifu en það dugði þó ekki til fyrir Kópavogsliðið. Þá er vert að minnast á ungan og efnilega Blika, Hafstein Guðnason. Hann kom inn á í fyrsta sinn í síðasta leikhluta og lét vel til sín taka; gaman að sjá þegar ungir leikmenn nýta mínúturnar sínar svona vel. Eins og fyrr segir lönduðu Hlíðarendapiltar góðum sigri, 96-105, og morgunljóst að þeir verða í toppbaráttu 1. deildarinnar. Þar ætla reyndar hinir grænklæddu líka að vera og því ekkert nema stuð og stemmning framundan í deildinni í vetur.
Umfjöllun / Gylfi Gröndal
Myndir / Bjarni Antonsson