Ætlum að henda í smá lið hérna hjá okkur allt þangað til að dráttur í riðil okkar í Helsinki að ári fer fram þann 22. nóvember nk. Okkur langar að vita hvaða lið yrðu í riðli með Íslandi ef landsliðsmenn okkar fengju að ráða drættinum. Úr mörgu er að velja og skemmst frá því að segja lentu okkar menn líkast til í allra sterkasta riðli frá upphafi Eurobasket í Berlín í fyrra. En hvað myndu drengirnir vilja ef þeir fengju að ráða? Vilja þeir aftur sama "dauðariðil" eða vilja þeir "auðveldara" prógram ef svo má að orði komast.
Hlynur Bæringsson ríður á vaðið og hér er hans draumariðill í Finnlandi að ári.
Ef ég réði þessu myndi þetta líta svona út:
Ísland
Frakkland
Grikkland
Finnland
Ungverjaland
Belgía
Horfandi á styrkleikaflokkana þá sér maður hve erfitt verkefnið verður. Öll liðin að sjálfsögð sterk en þarna leynast einhverjir möguleikar fyrir okkur.
Frakkar og Grikkir, ég hef aldrei spilað við þau áður. Alltaf upplifun að mæta svona sterkum þjóðum. Án þess að þekkja Ungverjaland mikið gæti ég trúað að þar gætum við átt betri möguleika en gegn öðrum í þeim flokki. Belgar, öll liðin í þessum flokki eru áþekk að getu. Valdi Belgíu eiginlega bara útaf því við unnum þá í haust og það gæti gefið sjálfstraust.
Því má svo bæta við að Grikkir eru í raun ákjósanlegir fyrir Ægi Steinars, hann ber miklar tilfinningar til Spanoulis. Þyrftum bara að passa að hann myndi ekki missa sig í myndatökum og öðru.