spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaTindastóll Íslandsmeistari í fyrsta skipti eftir æsispennandi oddaleik gegn Val

Tindastóll Íslandsmeistari í fyrsta skipti eftir æsispennandi oddaleik gegn Val

Í kvöld fór fram oddaleikurinn á milli Vals og Tindastóls í Origo höllinni. Fimmti leikurinn og spennan var gríðarleg fyrir leik. Áhorfendur troðfylltu höllina löngu fyrir leik og stemmingin var, eins og vitað var, allsvakaleg.

Leikurinn byrjaði með látum, mikill hraði á báða bóga.  Eitthvað var samt hittnin að stríða liðunum, þangað til að Kári Jóns ákvað að sýna af hverju hann er af mörgum talinn besti leikmaður Subway deildarinnar. Fór fyrir sínum mönnum og þegar staðan var orðin 11-2 ákvað Pavel að taka leikhlé. Það byrjaði samt ekki vel eftir leikhlé því Stólarnir misstu boltann klaufalega og Booker skoraði auðvelda körfu.  En eftir það jafnaðist leikurinn, hvorug liðin náðu að koma körfu ofan í fyrr en Booker setti niður partýþrist. Kári kveikti síðan í stúkunni með flautuþristi og Valsmenn leiddu með 27-14 eftir fyrsta leikhluta. Á meðan Valsmenn eru með 62% þriggja stiga nýtingu er Stólarnir með 0%.

Það var síðan allt annað Tindastólslið sem út í annan leikhluta, mun ákveðnari og árásargjarnari.  Hægt og rólega minnkuðu þeir forystuna án þess þó að ógna henni. Þegar fjórar mínútur voru eftir af hálfleiknum hafði Stólunum tekist að minnka forskotið niður í 5 stig. Og sá munur hélt í hálfleik, Valsmenn leiddu með 43 stigum gegn 38.

Það var síðan mikið jafnræði með liðunum í upphafi seinni hálfleiks. En þegar Drungilas setti niður þriggja stiga körfu um miðbik leikhlutans, var eins og öll vötn væru að falla í Skagafjörðinn. Woods kom Stólunum yfir í fyrsta skipti í leiknum.  Síðan skiptust liðin á að hafa forystu og Woods náði síðan ótrulegri flautukörfu og kom Stólunum yfir 63-64 þegar þriðja leikhluta lauk.

Síðasti leikhlutinn var síðan æsispennandi, jafnt nánast öllum tölum. Woods fór hamförum í liði Tindastóls og Pétur stjórnaði þessu eins og hershöfðingi. Hjá Val var Kristófer að skila sínu og Kári setti niður risastóran þrist þegar tvær mínútur voru eftir og komu Val í þriggja stiga forystu. Þegar rúm mínúta var eftir fór Kristó útaf með sína fimmtu villu. Þegar 15 sekúndur voru eftir jafnaði Woods leikinn 79-79.  Valur tók leikhlé og uppúr því skoraði Kári frekar auðvelda körfu og kom Val yfir um 2 stig. Tindastóll tók leikhlé og áhorfendur gjörsamlega að tapa sér úr spenningi. Upp úr því er brotið á Woods fyrir utan þriggja stiga línuna og hann svellkaldur setur þau öll niður og tryggir Tindastóli sinn fyrsta Íslandsmeistaratitill. Til hamingju Tindastóll.

Hjá Val var Kári stighæstur með 19 stig, Kristó með 16 og Pablo með 13. Hjá Tindastól var Woods gjörsamlega frábær, yfirburðamaður á vellinum með 33 stig. Pétur átti einnig stórkostlegan leik með 9 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar. Það er síðan vert að minnast þátt Axels Kárasonar, spilaði ekki sekúndu en var óþreytandi að klappstýra stuðningsmönnum og peppa sitt lið.

Það er synd að þessu frábæra einvígi sé lokið en Tindastólsmenn eru vel af þessum tittli komnir, geggjuð umgjörð og frábært lið.

Valur getur vel við unað, þótt sárt sé að tapa þessu svona í blálokin. Kanalausir fóru þeir allaleið í úrslit og voru hársbreidd frá því að verja titillinn sinn.

Nú er mótið búið og þá er bara að byrja að telja niður í næsta mót.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -