Keflvíkingar mættu í Ásgarð í kvöld eftir nokkuð auðsóttan sigur gegn Snæfelli í síðustu umferð, en Stjörnumenn höfðu í síðustu umferð sótt góð 2 stig til Njarðvíkur. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik þar sem Stjörnumenn virkuðu hálf andlausir, tóku þeir öll völd á vellinum í þriðja leihluta og náðu þægilegri forystu sem hélst til loka. Tómas Heiðar Tómasson var stigahæstur Stjörnumanna með 25 stig en Amin Stevens var stigahæstur gestanna með 24 stig og tók að auki 14 fráköst.
Tapaðir boltar
Stjörnumenn sýndu ótrúlegt kæruleysi með boltann í fyrri hálfleik, og töpuðu 15 boltum gegn 7 töpuðum boltum Keflvíkinga. Þrátt fyrir þessa huggulegu meðgjöf þá tókst Keflvíkingum að vera 9 stigum undir þegar að flautan gall.
Vendipunkturinn
Þegar að 1:14 voru eftir af fyrri hálfleik fær Reggie Dupree 2 tæknivillur, eina fyrir að slá svitabandið af Justin Shouse og svo aðra víðáttuheimskulega þegar hann tekur svitabandið sem liggur á gólfinu og hendir því aftur fyrir keflavíkurbekkinn. Dómarar leiksins voru frekar lengi að ákveða sig áður en þeir splæstu seinna T-inu á Reggie. Réttur dómur og alger óþarfi hjá Reggie, sem átti fínan hálfleik.
Kveikt í netinu.
Stjörnumenn röðuðu niður þriggja stiga skotunum beggja vegna hálfleiksins og tóku þeir flestir þátt í partýinu, þó enginn meira en Tómas Heiðar Tómasson sem setti niður 7 stykki í 8 skotum. Í heildina setti Stjarnan niður 16 af 29 þriggja stiga skotum sínum, ekki dónaleg tölfræði það.
Í hnotskurn.
Eftir frekar jafnan fyrri hálfleik þá sýndu Stjörnumenn hvers þeir eru megnugir og rúlluðu yfir Dupree-lausa Keflvíkinga í þeim síðari. Tómas Heiðar, Hlynur, Justin og Devon voru allir mjög öflugir og nálægt 20 stigunum hver fyrir sig. Að sama skapi voru Keflvíkingar í miklum vandræðum bæði í sókn og vörn, sérstaklega eftir að Reggie var sendur út úr húsi. Þeir þurfa að sýna miklu meira ef þeir ætla sér einhverja alvöru hluti í vetur.
Umfjöllun / Sigurður Orri Kristjánsson
Mynd / Bára Dröfn Kristinsdóttir