Breiðablik komst í gærkvöld í 8-liða úrslit Maltbikarkeppni kvenna þegar þær lögðu Fjölnisstúlkur, 73-60, í hörkuleik í Smáranum, en staðan var, 35-35, í hálfleik.
Bæði þessi lið leika í 1. deild kvenna og mættust fyrir um mánuði síðan í Grafarvoginum. Blikastúlkur unnu þá öruggan sigur, 56-75, en allt annað var að sjá gestina úr Grafarvoginum í kvöld.
Fjölnisstúlkur mættu ákveðnar til leiks og höfðu tögl og hagldir í 1. leikhluta. Þær voru greinilega staðráðnar í að bæta fyrir slakan leik liðanna í deildinni í október. Blikastúlkum voru hinsvegar nokkuð mislagðar hendur í sókninni og náðu gestirnir forystu eins og, 0-5, 8-15 og 10-17.
Blikastúlkur hresstust til muna í 2. leikhluta og fór pressuvörnin þeirra að ganga ágætlega. Þær náðu fljótt að saxa á forskot gestanna – enda bara 2 stig – og komust yfir, 21-19, og svo aftur, 25-19, og voru síðan jafnan með frumkvæðið allt til loka hálfleiksins þegar Fjölnir klóraði hressilega í bakkann margfræga og jafnaði metinn, 35-35.
Blikastúlkur mættu ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og í 3. leikhluta má segja að þær hafi lagt grunninn af glæstum bikarsigri í Maltkeppninni. Þær unnu leikhlutann, 15-7, og náðu oft og tíðum góðri baráttu í vörninni og héldu gestunum í aðeins sjö stigum í leikhlutanum.
Í fjórða leikhluta leiddu heimastúlkur með 10-12 stigum en gestirnir úr Grafarvoginum neituðu ávallt að gefast upp. Þær náðu að minnka muninn niður í 8 stig, 57-49, þegar tæplega 5 mínútur lifðu leiks. Þá voru Blikar í ráðleysislegri sókn og skotklukkan við það að renna út. Einhverra hluta vegna endurnýjaðist hún og dómararnir gerðu enga athugasemd við það og náði Shanna þá að skora afar mikilvæga 3ja stiga körfu fyrir Blika og breyta stöðunni úr, 57-49, í, 60-49. Blikar sigldu svo leiknum nokkuð örugglega í höfn og verða í hattinum góða þegar dregið verður í 8-liða úrslitum keppninnar.
Hjá Blikastúlkum sá byrjunarliðið nánast um stigaskorunina: Telma, Ísabella, Sóllilja, Shanna og Inga. Það segir þó ekki alla söguna því aðrar í liðinu áttu góðan leik og létu vel til sín taka á vellinum. Þá er aukinheldur gaman að sjá að Hildur, þjálfari Blika, róterar liði sínu mikið og treystir greinilega öllum í hópnum. Hún virðist hinsvegar lítið gefin fyrir leikhlé en undirritaður hefur ekki enn séð hana taka eins og eitt slíkt! Hvað um það.
Fjölnisstúlkur eru úr leik í bikarnum en léku miklu betur en fyrir um mánuði síðan þegar sömu lið áttust við. Eins og stóð á Maltflöskunum gömlu og góðu hlýtur þessi leikur þó að verða þeim nærandi og styrkjandi og gott ef hann gefur þeim ekki líka hraustlegt og gott útlit líka!
Sæbi, þjálfari Fjölnis, getur vel byggt á frammistöðu stúlknanna í kvöld og eru þær greinilega á uppleið eftir rýra uppskeru í deildinni það sem af er vetri.
Breiðablik: Shanna Dacanay 17 stig/4 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Telma Lind Ásgeirsdóttir 17 stig/6 stolnir boltar, Sóllilja Bjarnadóttir 13 stig/5 fráköst/3 stoðsendingar, Isabella Ósk Sigurðardóttir 10 stig/15 fráköst/5 stolnir boltar/3 varin skot, Inga Sif Sigfúsdóttir 9 stig/3 stolnir boltar, Hafrún Erna Haraldsdóttir 2 stig, Kristín Rós Sigurðardóttir 2 stig, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir 2 stig, Linda Kristjánsdóttir 1 stig.
Fjölnir: Berglind Karen Ingvarsdóttir 15 stig/7 fráköst/7 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Margrét Ósk Einarsdóttir 11 stig/5 fráköst, Eva María Emilsdóttir 9 stig/10 fráköst, Fanney Ragnarsdóttir 8 stig, Aníka Lind Hjálmarsdóttir 6 stig/5 fráköst, Friðmey Rut Ingadóttir 5 stig/3 stoðsendingar, Guðrún Edda Bjarnadóttir 4 stig/10 fráköst/4 stolnir boltar, Margrét Eiríksdóttir 2 stig.
Umfjöllun / Gylfi Gröndal