Valur tekur á móti Tindastól kl. 19:15 á fimmtudagskvöldið í oddaleik um Íslandsmeistaratitilin. Það sem af er einvígi liðanna hafa þau skipst á að vinna útileikina, þannig að Valur hefur í tvígang unnið í Síkinu og Tindastóll hefur unnið báða leiki sína í Origo Höllinni.
Umgjörð og miðasala á leikina hefur gengið vel, en uppselt hefur verið á þá alla of hafa mun færri en hafa viljað komist að. Þá hafa félögin bæði staðið sig vel í að skapa alvöru leikdags stemningu í kringum viðureignirnar, þar sem að leikurinn sjálfur hefur verið eins og lokaatriði í skemmtidagskrá.
Þjálfari Tindastóls Pavel Ermolinski tekur undir þetta í færslu sinni á samfélagsmiðlum fyrr í dag, en biður húsráðendur um að skrúfa fyrir tónlistina í leikmannakynningum morgundagsins. Segir hann þá leikmenn sem leiki á morgun eiga það skilið að heyra nafn sitt kallað og lófaklapp þegar liðin verða kynnt til leiks.