Heimildir herma að hinn 19 ára gamli miðherji Þórsara á Akureyri, Tryggvi Snær Hlinason eigi möguleika á því að fara erlendis strax eftir áramót og sömu heimildir segja að þó nokkur lið í Evrópu bíði í röðum eftir því að fá þennan hæfileikaríka miðherja til sín. Tryggvi sjálfur er hinsvegar ekki alveg á þeim nótum að fara strax erlendis þegar við heyrðum í honum. "Það þarf eitthvað gríðarlegat að koma fyrir ef af þessu verður." sagði Tryggvi og svo sem útilokaði ekki neitt en bætti við að andlega væri hann mögulega ekki tilbúin í slíkt.
"Draumurinn er jú auðvitað að fara erlendis og spila körfubolta sem atvinnumaður og gera alla sem hafa hjálpað mér og stutt mig stolta. Ég sé fyrir mér að fara þar sem ég spila við betri leikmenn en ég spilaði síðast. Annars er ég aðallega að fókusa á nútímann og kannski mánuð fram í tímann." sagði Tryggvi ennfremur í samtali við Karfan.is
Óhætt er að gerast svo djarfur að kalla Tryggva framtíðar miðherja okkar Íslendinga. Það þarf ekki að líta lengra en síðasta sumar þegar U20 lið okkar gerði frábæra hluti og komst í A-deildina einmitt með Tryggva í fararbroddi sem stoð og stytta þess liðs í hjarta varnarlínunar. Tryggvi hefur hinsvegar ef marka má heimildir úr því að velja að fara til Bandaríkjanna í háskólanám eða leita beint í atvinnumennskuna. "Ég hef skoðað einn háskóla og mun heyra í umboðsmönnum eitthvað á næstunni og skoða hvað er í boði þar. Annars er engin ástæða til að flýta sér í þessum málum." sagði Tryggvi ennfremur.
Aðspurður um framtíðarsýn, drauma sína og mögulega hvaða búningi Tryggvi sæi sig í ef allt gengi upp. "Einn búningur er fremri öðrum og það er auðvitað landsliðsbúningurinn. Það væri auðvitað geggjað að komast í NBA deildina en ég get hinsvegar ekkert sagt til um einhvern "drauma búning" þar." sagði Tryggvi að lokum.
Í ansi þéttri Dominosdeildinni standa Þórsarar með 10 stig í 6. sæti deildarinnar og síðasti leikur þeirra á árinu er í Stykkishólmi á morgun. Tryggvi er að skila 9 stigum og um 6 fráköstum á leik á sínu fyrsta tímabili í deild þeirra bestu.