Njarðvíkingar hafa nú krækt sér í sinn stóra mann (203 cm hæð) fyrir seinni hluta Dominosdeildarinnar og er það fyrrum "Skagfirðingurinn" Myron Dempsey sem mun koma til með að klára tímabilið með þeim grænklæddu í Ljónagryfjunni. Myron sem fyrr segir spilaði með Tindastól í fyrra þegar hann kláraði seinni hluta tímabilsins og svo allt tímabilið þar áður. Myron hefur á þessum tíma skorað um 20 stig á leik og tekið í kringum 10 fráköst að meðaltali. Í raun akkúrat það sem Njarðvíkinga vantar en sem stendur eru þeir í 10. sæti deildarinnar með 8 stig, líkt og Haukar og ÍR. Hvort þetta sé svo mögulega púslið sem vantað hefur í Njarðvíkurliðið í vetur á eftir að koma í ljós en sem fyrr segir halda þeir Jeremy Atkinson áfram í sínum röðum.
Frumraun Dempsey í grænum búning er ekki af verri endanum, nágrannaslagur gegn Keflavík þann 5. janúar nk.