Í kvöld fer fram viðureign Burgos og Cáceres í LEB Gold deildinni á Spáni. Þar mætast "félagarnir" Ægir Þór Steinarsson með Burgos og svo Ragnar Nathanelson (NatVélin) leikmaður Cáceres. Við heyrðum í Ragnar og Ægi nú í morgunsárið og báðir voru þeir nokkuð sigurreifir í sínum orðum og fast var skotið. "'Ég veit nú svo sem lítið um þetta Burgos lið og augljóslega hafa þeir ekki björtustu perurnar innan sinna raða. En eitt veit ég og það er að þeir klúðruðu nokkuð hressilega sinni "scout" vinnu á Nat-vélinni. Annars er svo kalt hérna uppfrá að ég get ekki beðið eftir að komast heim með sigurinn á bakinu. Svo reyndar er óskiljanlegt að þeir séu í raun yfir höfuð að reyna að ná sigri í þessari deild þar sem þeir vita að þeir hafa ekkert efni á því að fara í ACB deildina, þar sem þeir hafa aldrei verið. Það höfum við Cáceres hinsvegar upplifað" sagði Ragnar í samtali.
Ægir þakkaði hlý orð og svaraði þessu fullum hálsi. "Við höfum í rólegheitum verið að fara yfir leik Cáceres og það er ekkert leyndarmál að við komum til með að nýta okkur veikleika þeirra grimmt í kvöld. Þetta eru svo sem engin geimvísindi ég verð þarna niðri á blokkinni að pósta Ragnar, eitt "pump fake" og Raggi er farinn. Þetta eru auðveld tvö stig allt kvöldið. Raggi er vissulega skráður 214 cm á hæðina en fæstir vita að drengurinn rétt skríður í tvo metrana. Ég myndi henda í spá á þennan leik en þá væri það í raun tímasóun. Sólstrandargæjarnir í Cáceres munu frjósa hérna fyrir norðan"
Drengirnir héldu svo áfram á símalínunni og sagðist Ragnar hlakka til að troða yfir Ægi og um leið hringja "bjöllum sínum" í andliti hans. Ægir svaraði um hæl og sagði Ragnar geta hringt inn jólin með þessum bjöllum sínum.
Og þar hafið þið það, búast má við hörku leik en sem stendur eru Burgos í 4. sæti deildarinnar með 10 sigra og 5 tapleiki en Cáceres eru í 11. sæti með 7 sigra og 8 tapleiki.