Það var lítið annað en sviðin jörð sem Charles Garcia skyldi eftir sig í Grindavíkinni eftir veru sína hjá þeim í fyrra ef marka má umtal þar í bæ. Garcia leit út fyrir að vera sá erlendi leikmaður sem átti ekkert annað eftir en að lyfta þeim stóra þegar hann steig uppí vél Icelandair vestra hafs. Eftirvæntingin var slík samkvæmt heimildum að stjórnarmenn UMFG héldu varla þvagi yfir komu hans. Það kom svo á daginn að þrátt fyrir að þessi stæðilegi Kaliforníupeyji fengi glænýja Cintamani úlpu gefins þá stóð varla steinn undir steini í framlagi hans til liðs Grindavíkur og svo fór að þeir Grindvíkingar kvöddu drenginn með bros á vör um leið og liðið hafði spilað sinn síðasta leik.
Nú ca ári seinna er hin ágæti Charles Garcia að spila fyrir Austin Spurs í D-deild NBA. Þar er kappinn að sýna takta sem aldrei sáust á Íslandi, í það minnsta sá undirritaður þessar hreyfingar ekki hjá honum í Dominosdeildinni. Það skiptir augljóslega stóru máli hjá kappanum hvort þú ert að spila í Dominosdeildinni eða þá á þröskuldi þess að vera að spila fyrir Greg Popovich.