Tvö af heitari liðum deildarinnar mættust í kvöld í Njarðvíkinni þegar Grindvíkingar komu í heimsókn. Fyrir leik voru Njarðvíkingar á fjögurra leikja sigur hrinu og Grindvíkingar höfðu tekið þrjá í röð í deildinni. Svo fór að gestirnir höfðu sigur 79:87 eftir spennu leik.
Þáttaskil:
Það er óhætt að segja að þáttaskil og vendipunktur leiksins hafi verið þegar Lewis Clinch reif sig á loft og tróð með látum "alley-oop" troðslu á loka kafla leiksins. Eftir þetta snögghitnaði maðurinn líkt og örbylgjuofn og ísaði hann svo leikinn með annari eins troðslu og möguleg tilþrif vetrarins komin í hús þetta árið. Lewis fór hægt um sig og var í raun ekkert að spila vel framan af leik en endaði leik með 20 stig.
Tölfræðin lýgur ekki:
Njarðvíkingar styðjast við sitt tveggja kana kerfi sem virðist hafa virkað vel fyrir þá fram að þessu. En í kvöld hafði mögulega verið hægt að splitta mínútum þannig að Atkinson hefði fengið örlítið fleiri því Myron Dempsey virtist ekki getað hitt boltanum í rútu þó hann stæði inní henni. Með Atkinson inná höfðu Njarðvíkingar komið sér í 7 stiga forystu sem hvarf líkt og dögg fyrir sólu þegar Dempsey kom inná. Ekki hans leikur þetta kvöldið. Atkinson +11 Dempsey -19 í framlagi þetta kvöldið.
Hetjurnar:
Lewis Clinch fyrrnefndur tekur þennan titil þó svo að Dagur Kár Jónsson hafi gert harða atlögu að honum einnig. Framan af og í raun allan leikinn var Dagur að spila fyrirmyndar vel og hefur verið að gera það fyrir Grindavík í allan vetur. En lokakafli Lewis var þungavigta og því er hann maður leiksins.
Kjarninn:
Njarðvíkingar þurfa að hefja leiki sína af meiri krafti þeir hafa oftar en ekki náð að koma sér nægilega fljótt í þann gír að spila körfuknattleik en svo tekið sína sigurleiki á lokakaflanum. Það gerðist hinsvegar ekki í kvöld og til að nefna eitthvað þá var varnarleikur þeirra í fyrsta leikhluta algerlega taugalaus enda fékk liðið á sig aðeins 2 villur í fyrsta leikhluta. Grindvíkingar eru í raun hálfgert jójó lið. Þeir spila glimmrandi vel en fara svo á svipstundu að kasta boltanum frá sér eða í skotval í sínum sóknarleik sem minnibolta þjálfarar myndu ekki sætta sig við. Ef þeir gulklæddu ná tökum á þessu og meiri stöðuleika þá eru þeir til alls líklegir.
Something gotta shake
— Jeremy Atkinson™ (@BigCountryEC) February 17, 2017
Njarðvík og Þór vinna topp/bestu liðin, en tapa svo gegn lakari. #jójó #dominos365
— Teitur Örlygsson (@teitur11) February 17, 2017
Texti/Mynd: SbS