spot_img
HomeFréttirKR sigur í DHL Höllinni

KR sigur í DHL Höllinni

 

KR-ingar fengu lið ÍR í heimsókn í Frostaskjólið í kvöld og bjuggust margir við hörkuleik, en ÍR-ingar hafa rétt talsvert úr kútnum undanfarnar vikur. Liðin höfðust ólíkt að í síðustu umferð þar sem ÍR söltuðu lánlausa Haukamenn með miklum mun en KR-ingar fengu óvæntan skell á Akureyri þar sem Þórsarar lékur á alls oddi. Eftir jafnan fyrsta leikhluta þá tóku KR-ingar öll völd á vellinum og unnu sannfærandi sigur 95 – 73. Hjá KR átti Þórir Þorbjarnarson flottan leik með 20 stig en stigahæstir ÍR-inga voru þeir Sveinbjörn Claessen og Matthías Orri Sigurðarson með 18 stig hvor.

 

 

 

Gangur leiksins

Hraðinn var mikill í upphafi leiks og ljóst að bæði lið ætluðu sér að gefa tóninn strax, þristarnir flugu upp hjá báðum liðum og var hittnin til fyrirmyndar. Staðan að loknum leikhlutanum var 29-27 KR-ingum í vil eftir að Matthías Orri setti þrist í lokin. Strax í byrjun annars leikhluta byrjuðu KR að herða vörnina og gekk ÍR-ingum illa að finna glufur, KR vann leikhlutann með 10 stigum og leiddu 51-42 í hálfleik. Það var svo 7-0 áhlaup í byrjun þriðja leikhluta sem hleypti leiknum upp og KR sigldu nokkuð þægilegum sigri í höfn.

 

Gjafmildi

KR-ingar létu boltann ganga virkilega vel frá byrjun leiks og luku leik með 30 stoðsendingar, sem er virkilega vel af sér vikið þegar að körfurnar eru 35. Allir leikmenn liðsins tóku þátt í gleðinni og var Pavel þeirra atkvæðamestur með 7 stykki. Til samanburðar þá gáfu leikmenn ÍR samtals 14 stoðsendingar. Það er virkilega erfitt að eiga við þetta KR lið þegar að boltinn fær að dansa um völlinn eins og í kvöld.

 

Þóris þáttur Þorbjarnarsonar

Þórir Þorbjarnarson fékk að byrja leikinn í stað Brynjars Þórs Björnssonar sem er meiddur. Þórir þakkaði pent fyrir sig, sallaði niður 20 stigum og var skotnýtingin frábær, 9/13. Þórir lét ÍR-inga líta illa út á köflum með hraða sínum, tækni og áræðni og var duglegur að hlaupa völlinn sem skilaði honum auðveldum körfum. Virkilega gaman að sjá hvað Finnur treystir stráknum vel og það skilaði sér heldur betur í kvöld.

 

Lúxus

Það var talsverður getumunur á liðunum í kvöld og það er óneitanlega mikill lúxus fyrir frábært KR lið að geta boðið upp á leikmenn eins og Jón Arnór Stefánsson. Klassinn einfaldlega lak af honum í kvöld og var hann yfirburðamaður á vellinum þrátt fyrir að hafa ekki endilega sett upp flottustu tölfræðilínu vetrarins. 17-6-4 og 6/11 í skotum þar af 5/8 fyrir utan þriggja stiga línuna.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Myndir og viðtöl Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -