spot_img
HomeFréttirStjörnumenn tryggðu sér 2. sætið í DHL Höllinni

Stjörnumenn tryggðu sér 2. sætið í DHL Höllinni

 

Stjörnumenn tryggðu sér 2. sætið og heimavallarrétt í fyrstu 2 umferðum úrslitakeppninnar með góðum sigri á deildarmeisturum KR í DHL Höllinni í kvöld.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn betur og komust í 2-11, þá unnu KR-ingar sig jafnt og þétt inn í leikinn og var staðan eftir 1sta fjórðung 19-19. Leikurinn var svo nokkuð jafn allan tímann en í lokin voru taugar Stjörnumanna sterkari og þeir lönduðu sigri 73-78 eftir spennandi lokamínútur.

Atkvæðamestur gestanna var Anthony Udonsi með 19 stig og 8 fráköst, en hjá heimamönnum skoraði Brynjar Þór Björnsson 15 stig.

 

Deildarmeistaraþynnka

Maður hafði það á tilfinningunni allan leikinn að KR-ingar væru saddir eftir að hafa tryggt sér deildarmeistaratitilinn á dögunum, menn voru ekki að hlaupa kerfin síns eins vel og oft áður og skilaði það sér mikið í löngum sóknum sem að Stjörnumenn voru ekki í miklum vandræðum með að verjast. Það segir samt mikið um KR-liðið að þeir hefðu vel getað klárað þennan leik þrátt fyrir allt. Stjörnumenn skelltu sér niður á sama plan mest allann leikinn en kláruðu síðustu mínúturnar með miklum stæl, kannski heyrðu þeir af úrslitunum í Schenker Höllinni og rifu sig í gang.

 

Shouse

Justin Shouse var á skýrslu í kvöld í fyrsta sinn síðan 27. Janúar þrátt fyrir að hafa ekki spilað. Það gefur góð fyrirheit fyrir Stjörnuna ef kappinn getur mætt til leiks í úrslitakeppninni því að sá sem mun vera í leikstjórnandastöðunni gegn ÍR-ingum mun þurfa að eiga við Matthías Sigurðarson sem er í feikna formi þessa dagana. Sóknarleikur liðsins er einfaldlega miklu betri þegar að bakvörðurinn geðþekki er á gólfinu.

 

Vondur dagur

Menn áttu misgóða tíma á gólfinu í kvöld, Ágúst Angantýsson átti sennilega erfiðast uppdráttar en hann setti einungis 2 af 10 skotum sínum niður, tók 1 frákast og fékk 5 villur á þeim 17 mínútum sem hann spilaði. Hinum megin var Pavel Ermolinskij ólíkur sjálfum sér, en hann var með fleiri tapaða bolta heldur en stoðsendingar í leiknum, 4 stoðsendingar og 6 tapaðir, hann barðist þó vel, skoraði 14 stig og tók 11 fráköst.

 

Framhaldið

Eins og áður sagði þá luku þessi lið tímabilinu í sætum eitt og tvö í deildinni. KR-ingar munu þurfa að eiga við norðanmenn í Þór Akureyri í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en Stjörnumenn eiga ÍR-inga. Veislan heldur áfram.

 

Tölfræði Leiksins

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Fréttir
- Auglýsing -