spot_img
HomeFréttirKemst Skallagrímur á sama skrið og í byrjun árs?

Kemst Skallagrímur á sama skrið og í byrjun árs?

Lið: Skallagrímur

Íslandsmeistaratitlar eftir úrslitakeppni: 0

Staða eftir deildarkeppni: 3. sæti

 

Mótherji í undanúrslitum: Keflavík

 

Innbyrðisviðureignir gegn Keflavík í vetur:

Liðin mættust fimm sinnum í vetur, þar af fjórum sinnum í deild og einu sinni í bikarúrslitaleiknum sjálfum. Í deildarkeppninni vann Keflavík þrjá leiki, báða á heimavelli og fyrri leikinn í Borgarnesi. Skallagrímur vann seinni heimaleik sinn nokkuð örugglega en steinlág í síðasta leik liðanna fyrir stuttu. Eins og flestir muna var það svo Keflavík sem vann bikarinn eftir æsilegan úrslitaleik gegn Skallagrím. 

 

Hvað þarf Skallagrímur að gera til að komast í úrslitaeinvígið?

Borgnesingar þurfa að ná að hægja á leik Keflavíkur og hleypa þeim ekki í hlaupaleik þar sem orka Keflvíkinga er gríðarleg. Leikmannahópur Skallagríms er ekki djúpur og þurfa allir leikmenn liðsins að leggja í púkk ef vel á að fara. Stuðningsmenn Skallagríms hafa verið mjög öflugir í vetur og verður algjört möst fyrir liðið að það haldi áfram, því ef einn leikur tapast í Fjósinu er verkefnið svo gott sem óvinnandi. 

 

Hvað gæti farið úrskeiðis?

Á æfingu liðsins fyrir lokaleik deildarkeppninnar voru sjö leikmenn með. Meiðsli og veikindi hafa haft mikil áhrif á liðið seinni part móts og fáir leikmenn spilað. Tavelyn Tilmann var til að mynda ekki með í tveimur af síðustu þremur leikjum mótsins. Ef liðið nær ekki almennilega saman og meiðsli halda áfram að hrjá lykilleikmenn verður einvígið sérstaklega erfitt fyrir Skallagrím. 

 

Lykilleikmaður:

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hefur verið algjör lykilleikmaður Skallagríms í allan vetur. Mikið hefur á henni mætt og virtist nokkur þreyta vera farin að segja til sín í síðustu leikjum. Sigrún er með 15 stig og 11 fráköst að meðaltali í leik á tímabilinu og þarf hún helst að fara yfir það meðaltal í einvíginu gegn Keflavík ef Borgnesingar ætla að eiga möguleika. 

 

Fylgist með:

Reynsluboltinn Kristrún Sigurjónsdóttir hefur stigið gríðarlega upp seinni hluta tímabils eftir að liðið missti Auði Írisi og meiðslin fóru að hrúgast inn. Hún er að rifja upp fyrir körfuboltaáhugamönnum hversu góður leikmaður hún er sem mun reynast gríðarlega mikilvægt fyrir félag sem er í fyrsta skipti í úrslitakeppni í kvennaflokki. 

 

Spá hlustenda:

Fyrir síðasta þátt af Podcasti Karfan.is voru hlustendur beðnir um að spá fyrir um úrslit þessa einvígis. Það er rúmlega 80% þátttakenda sem spá Keflavík sigri og flestir á því að einvígið klárist í fjórum leikjum. Nærri 20% hafa trú á sigri Skallagríms og þá væri líklegast að það myndi gerast í fimm leikjum. Það er því ljóst að flestir gera ráð fyrir því að Keflavík haldi uppteknum hætti í úrslitakeppninni og hafi tögl og haldir á Skallagrímskonum. 

Leikdagar í undanúrslitum:

Leikur 1 29. mars kl. 19:15 TM Höllin – í beinni útsendingu Stöð 2 Sport

Leikur 2 2. apríl kl. 19:15 Fjósinu Borgarnesi  – í beinni útsendingu Stöð 2 Sport

Leikur 3 6. apríl kl. 19:15 TM Höllin – í beinni útsendingu Stöð 2 Sport

 

Leikur 4 10. apríl kl. 19:15 Fjósinu Borgarnesi (ef þarf)

Leikur 5 13. apríl kl. 19:15 TM Höllin (ef þarf)

 

Viðtöl : 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -