spot_img
HomeFréttirFara Litlu Slátrararnir alla leið?

Fara Litlu Slátrararnir alla leið?

 

Lið: Keflavík

Íslandsmeistaratitlar eftir úrslitakeppni: 11

Staða eftir deildarkeppni: 2. sæti

 

Mótherji í undanúrslitum: Skallagrímur

Innbyrðisviðureignir gegn Skallagrím í vetur:

Liðin mættust fimm sinnum í vetur, þar af fjórum sinnum í deild og einu sinni í bikarúrslitaleiknum sjálfum. Í deildarkeppninni vann Keflavík þrjá leiki, báða á heimavelli og fyrri leikinn í Borgarnesi. Skallagrímur vann seinni heimaleik sinn nokkuð örugglega en steinlág í síðasta leik liðanna fyrir stuttu. Eins og flestir muna var það svo Keflavík sem vann bikarinn eftir æsilegan úrslitaleik gegn Skallagrím. 

 

Hvað þarf Keflavík að gera til að komast í úrslitaeinvígið?

Þegar að vel hefur gengið hjá Keflavík í vetur, þá hafa þær bæði verið að spila hraðan körfubolta, góða vörn og fá framlag frá mörgum leikmönnum. Nái Keflavík að spila sinn leik, þá ættu þær að fara áfram. Öfugt við það sem kannski haldið var fyrir þetta tímabil, þá getur Keflavík farið dýpra á bekk sinn heldur en nokkuð annað lið deildarinnar. Einnig hafa burðarstólpar liðsins leikið vel. Af 8 framlagshæstu íslensku leikmönnum deildarkeppninnar, eiga Keflavíkurstúlkur 4 þeirra í Emelíu Ósk, Thelmu Dís, Salbjörgu Rögnu og Birnu Valgerði.

 

Hvað gæti farið úrskeiðis?

Lið Skallagríms er að miklu leyti óútreiknanlegt. Hafa á tímabilum í vetur verið besta lið landsins, en svo seinna langt frá því. Eru með nokkra frábæra leikmenn. Mögulega besta íslenska leikmann þessa tímabils í Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur og á góðum degi þann besta erlenda í Tavelyn Tillman. Nái Skallagrímur að stjórna hraða leikjanna og séu leikmenn liðsins sæmilega hressir í þessari seríu, þá gæti Keflavík verið í vandræðum.

 

Lykilleikmaður:

Í mjög jöfnu Keflavíkurliði hefur Emelía Ósk Gunnarsdóttir hefur verið jafn besti leikmaður þess þetta tímabilið. Hefur skilað 12 stigum, 5 fráköstum, 2 stoðsendingum, 2 stolnum boltum og vörðu skoti að meðaltali í leik í vetur. Frábær á báðum endum vallarins kemur Emelía oftast með þá áræðni sem liðið þarf inn í leiki liðsins. 

 

Fylgist með:

Birna Valgerður Benónýsdóttir var á dögunum valin efnilegasti leikmaður deildarinnar í seinni umferðinni. Er 16 ára gömul að skila 12 stigum og 5 fráköstum á aðeins 19 mínútum spiluðum að meðaltali í leik. Verður virkilega gaman að sjá hana, líkt og reyndar fleiri leikmenn Keflavíkur, á stóra sviði úrslitakeppninnar.

 

Spá hlustenda:

Fyrir síðasta þátt af Podcasti Karfan.is voru hlustendur beðnir um að spá fyrir um úrslit þessa einvígis. Það er rúmlega 80% þátttakenda sem spá Keflavík sigri og flestir á því að einvígið klárist í fjórum leikjum. Nærri 20% hafa trú á sigri Skallagríms og þá væri líklegast að það myndi gerast í fimm leikjum. Það er því ljóst að flestir gera ráð fyrir því að Keflavík haldi uppteknum hætti í úrslitakeppninni og hafi tögl og haldir á Skallagrímskonum. 

 

 

Leikdagar í undanúrslitum:

Leikur 1 29. mars kl. 19:15 TM Höllin – í beinni útsendingu Stöð 2 Sport

Leikur 2 2. apríl kl. 19:15 Fjósinu Borgarnesi  – í beinni útsendingu Stöð 2 Sport

Leikur 3 6. apríl kl. 19:15 TM Höllin – í beinni útsendingu Stöð 2 Sport

 

Leikur 4 10. apríl kl. 19:15 Fjósinu Borgarnesi (ef þarf)

Leikur 5 13. apríl kl. 19:15 TM Höllin (ef þarf)

 

Viðtöl : 

Fréttir
- Auglýsing -