spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karla"Ætluðum auðvitað að vinna leikinn"

“Ætluðum auðvitað að vinna leikinn”

Íslandsmeistarar Vals óku á móti Þór í Origo Höllinni í kvöld í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna. Fyrir leikinn vann Þór fyrstu tvo leikina og gátu þeir því með sigri í kvöld tryggt sig áfram í úrslitaeinvígið. Með öruggum sigri náði Valur hinsvegar að halda sér á lífi og er næsti leikur liðanna í Þorlákshöfn komandi sunnudag 30. apríl.

Hérna er meira um leikinn

Karfan ræddi við Lárus Jónsson eftir sannfærandi tap að Hlíðarenda:

Lalli…fæ ég þig til að segja að þið hafið komið til að tapa leiknum og ætlið bara að klára þetta á sunnudaginn…?

Sko…við ætluðum auðvitað að vinna leikinn en við sáum náttúrulega að þetta yrði mikil brekka eftir að Jordan datt út líka…

…já strax eftir tvær mínútur eða svo…

…já eitthvað svoleiðis…við spiluðum fína vörn í fyrsta leikhluta eftir það…

…já og svo sem allan fyrri hálfleikinn…

…einmitt og annar leikhlutinn var bara mjög góður hjá okkur. En svo fannst mér liðsmunurinn sjást mjög fljótlega í þriðja leikhluta og Valsmenn gengu á lagið og voru töluvert betri en við. Leikurinn var kannski bara búinn þegar einhverjar 2 mínútur voru búnar af fjórða.

Akkúrat, það komu þarna tveir frá Kára og einn frá Svalasyni.

Já, þristar…í byrjun fjórða var þetta annað hvort að við myndum ná að minnka þetta í 10 fljótlega eða þetti færi bara upp í 30…

Ég sá það ekki gerast að þið mynduð ná að minnka þetta í fjórða..

..nei en maður veit aldrei hvað gerist í íþróttum.

Neinei, það er það sem er svo skemmtilegt við þær, þær koma manni stundum á óvart en ekki í kvöld!

Nei það gerði það ekki. Til að taka eitthvað út úr þessum leik fyrir okkur þá er það kannski helst það að guttarnir fengu að spila hérna fyrir fullu húsi og gegn leikmönnum á leveli sem þeir fá kannski aldrei aftur að spila á móti…gaman fyrir þá og leikur sem mun lifa með þeim í mörg ár.

Akkúrat. Ég verð að spyrja þig út í heilsufarið á mönnum, veistu eitthvað um það?

Jordan tognaði eitthvað á öxlinni eða eitthvað svoleiðis, ég veit ekki hversu alvarlegt það er. Vinnie er bara lasinn, það var bara 50/50 hvort hann myndi spila eða ekki en við ákváðum að taka ekki sénsinn á því. Hann verður klár í næsta leik en við sjáum bara til með Jordan.

Það verður allt tryllt á sunnudaginn?!

Jájá! Það verður líklega bara rosalegt gott körfuboltapartý.

Ég vona að það verði skemmtilegri leikur, ég hef séð skemmtilegri leiki…

Jájá, það verður pottþétt mikið skemmtilegri leikur en þetta!

Ætlaru að horfa á þennan leik aftur??

Ja…ég á örugglega eftir að kíkja á einhvern hluta af honum alla veganna!

Sagði Lalli og verði honum að góðu að horfa á þennan aftur – undirritaður bíður hins vegar bara eftir sunnudeginum!

Fréttir
- Auglýsing -