Það var mikil eftirvænting í DHL Höllinni þegar að KR og Keflavík mættust í fyrsta leik í undarúrslitunum, áhorfendur voru mættir vel fyrir leik og var stemmning góð, sennilega sú besta í allan vetur hjá KR-ingum. KR sópuðu Þórsurum frá Akureyri í síðustu umferð en Keflvíkingar höfðu betur gegn Tindastól.
Jafnræði var með liðunum framan af fyrsta leikhluta en strax í öðrum leikhluta sigldu KR-ingar framúr og létu forystuna aldrei af hendi heldur bættu stöðugt í og unnu að lokum góðan sigur 90-71. Stigahæstur KR-inga var Darri Hilmarsson með 18 stig en hjá Keflvíkingum var Amin Stevens með 25 stig og 24 fráköst.
Gangur leiksins
Í 1. Leikhluta voru KR-ingar duglegir að henda boltanum frá sér og Keflvíkingar nýttu sér það og náðu að setja niður opnu skotin sín. Staðan var jöfn allan leikhlutann og voru bæði lið að keyra sín kerfi nokkuð vel, en KR-ingar fóru nokkrum sinnum illa að ráði sínu í opnum skotum, staðan 21-24 eftir 1. Leikhluta og allt í járnum.
Í 2. Leikhluta jókst hraðinn og harkan sömuleiðis, Snorri Hrafnkelsson var á öfugum enda olnbogans á Amin Stevens og þurfti að fara útaf í aðhlynningu. Hann kom ekki aftur við sögu í leiknum. Strax í byrjun leikhlutans setti Brynjar Þór tvær þriggja stiga körfur í andlitið á Reggie Dupree sem fór af einhverjum óskiljanlegum ástæðum undir boltahindranir sem að Brynjar fékk. Keflvíkingar létu þetta ekki slá sig útaf laginu og með góðum körfum frá Stevens og Ágústi Orrasyni tókst þeim að minnka muninn og var staðan í hálfleik 46-41. Stigahæstur Keflvíkinga í fyrri hálfleik var Amin Stevens með 17 stig en í jöfnu liði KR-inga var Brynjar þór stigahæstur með 9 stig.
Strax í byrjun seinni hálfleiks sást hvort liðið var með ferskari lappir og voru það KR-ingar enda með talsvert meiri breidd heldur en Keflvíkingar og þeir nýttu sér það til hins ítrasta og keyrðu hraðann ennþá meira upp. Það var stórt þegar að Ágúst lét verja frá sér sniðskot í lok leikhlutans og Vilhjálmur Kári skellti þristi af spjaldinu þegar að flautan gall. Staðan 71-55 og Keflvíkingar í talsverðum vandræðum.
4. leikhluti byrjaði á 2 töpuðum boltum frá Keflvíkingum og 2 körfum frá KR, munurinn orðinn 20 stig og leiknum í raun lokið. Keflvíkingar sem spiluðu á fáum mönnum í kvöld voru algerlega búnir á því og sást það best á því að skotin þeirra voru flest öll vel stutt og hraðaupphlaupin ekki sannfærandi. Kr-ingar sigldu svo bara leiknum heim með öruggri spilamennsku og góðum varnarleik. Lokatölur 90-71.
Tölfræðin lýgur ekki
Skotmenn KR-inga áttu fínan leik í dag, KR skaut 52% í kvöld en Keflavík einungis 38%. Þarna munaði bæði um ferskar lappir KR-inga og einfaldlega betur keyrð kerfi, betri hlaup og betri hindranir. Skot heimamanna voru oftast opnir þristar eða sniðskot alveg upp við körfuna, það er virkilega erfitt að vinna gott KR lið þegar að þeir skjóta svona vel.
Vörnin
Varnir liðana voru svipaðar í fyrsta leikhluta en svo tókst KR-ingum að loka gjörsamlega á tveggja manna leikinn sem Keflvíkingar vilja spila. Hörður Axel og Amin Stevens voru í miklum vandræðum með að finna glufur á góðri vörn heimamanna sem buðu Herði upp á þriggja stiga skot og harðlokuðu öllum leiðum inn í teiginn. KR voru líka ekkert á þeim buxunum að hleypa gestunum í sóknarfráköst og kláruðu sínar varnir mjög fagmannlega.
Þreyta
Í seinni hálfleik var bara annað liðið með ferska fætur enda spilaði KR á mörgum mönnum og allir fengu sínar hvíldarstundir. Keflvíkingar sem keyra mikið á sínu byrjunarliði voru gjörsamlega búnir á því undir lok 3. Leikhluta og það er afskaplega erfitt að reyna að koma til baka á móti KR liði sem er bæði betur hvílt og betur mannað. Keflvíkingar einfaldlega verða að reyna að nýta bekkinn sinn, sérstaklega í fyrri hálfleik leikja svo að lykilmenn séu ekki með tóman tank þegar að komið er í 4. Leikhluta.
Kjarninn
Það er einfaldlega þannig að Keflavík er ekki að fara að vinna leik í þessari seríu ef Hörður Axel á fleiri leiki eins og hann átti í kvöld. Skotin stutt, drævin ósannfærandi og sendingarnar lélegar. Hann endaði leikinn með 8 stig, 3 fráköst og 5 stoðsendingar, skaut einungis 3/14 og tapaði boltanum tvisvar á rúmum 36 mínútum. Það dugar ekki til. Hörður verður að vera einn besti maður vallarins ef Keflavík á að eiga möguleika. Hann var það ekki í kvöld.
Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson
Myndir Bára Dröfn