Að Hlíðarenda hljómaði þessi spurning forðum; ,,Liggur þér nokkuð við?“ Spurningin á einnig við í dag og svarið er að sama skapi það sama – líf Hlíðarendapilta í úrslitakeppninni liggur við! Valsliðið hefur ekki sýnt sitt besta í viðureigninni gegn Þórsurum hingað til, liggja 2-0 undir og spurning hvort strengur fáist í bogann í kvöld.
Þór hefur vaxið ásmegin hægt og bítandi í vetur enda hafa hetjur á borð við Styrmi, Semple og Shahid gengið til liðs við Þór. Hlutirnir hafa þó ekki gengið algerlega hindrunarlaust fyrir sig, í átta liða úrslitum gegn Haukum þurfti 5 leiki og á köflum spilaði liðið einfaldlega hræðilega illa. Það má þó gera því skóna að leikur kvöldsins snúist aðallega um það hvort Þórsarar hafi raunverulega áhuga á því að klára seríuna í kvöld – ef ekki fara leikar á svipaðan hátt og í Gullborginni í gærkvöldi.
Kúlan: Ílangir og íðilfagrir hárlokkar streyma um ef litið er í Kúluna þessa stundina. Það táknar augljóslega öruggan 93-73 Valssigur.
Byrjunarlið
Valur: Kristó, Pablo, Hjálmar, Kári, Callum
Þór Þ.: Semple, Styrmir, Fotis, Emil, Dabbi
Gangur leiksins
Ljóst var áður en leikar hófust að það yrði á brattann að sækja fyrir gestina þar sem Shahid var frá vegna veikinda. Semple kenndi sér svo meins í öxl snemma leiks og sást ekki meira eftir það. Þó byrjuðu Þórsarar vel og komust í 2-8 eftir fjögurra stiga sókn frá Emil. Við tók 15-2 sprettur heimamanna, framlag kom úr öllum áttum fyrir Valsmenn og Lalli tók leikhlé. Staðan var 20-12 eftir fyrsta leikhluta sem segir meira en mörg orð um sóknarleik gestanna án Shahid, Semple og Pablo Hernandes.
Varnarleikur gestanna var á köflum alveg ágætur og hélt þeim inn í leiknum. Valsmenn leiddu samt allan annan leikhlutann með um 10 stigum og höfðu fulla stjórn á leiknum en ekki glitti mikið í drápseðlið sem er í takt við skaplyndi hins forna bónda að Hlíðarenda. Í hálfleik stóðu leikar 41-30 – ekki mikill munur en þó vafalaust fleiri en undirritaður svartsýnir á spennandi seinni hálfleik.
Liðin voru feimin við að skora fyrstu mínútur þriðja leikhluta en um miðjan leikhlutann náðu Valsmenn að slíta sig frá Þórsurum. Styrmir átti misheppnaða troðslu sem bauð upp á hraðaupphlaupsþrist frá Callum – staðan 50-33 og Lalli tók leikhlé. Það skilaði litlu og Hlíðarendapiltar nánast búnir að landa sigrinum eftir 3 leikhluta, staðan 63-43.
Kári Jónsson kastaði tólfunum í byrjun fjórða leikhluta með tveimur þristum og Svalason bar í bakkafullan lækinn í kjölfarið með einum til. Staðan var 72-43 eftir þau ósköp og gerði það að verkum að áhorfendur fengu nánast heilan ruslafjórðung. Minni og yngri spámenn stóðu sig með prýði í báðum liðum en það breytti engu um úrslitin, lokatölur 91-65 í leik sem fer tæplega í sögubækurnar.
Menn leiksins
Callum Lawson var atkvæðamestur Valsmanna með 16 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Annars mætti grípa í frasann um góðan liðssigur heimamanna í kvöld.
Fotis lét mest að sér kveða fyrir Þórsara, setti 15 stig og tók 9 fráköst.
Kjarninn
Auðvitað mæta lið ekki í leiki til þess að tapa en í ljósi aðstæðna hefur vonin líkast til fljótt orðið veik hjá gestunum. Hefðu Þórsarar fengið boð um það fyrir tímabilið að þeir myndu eiga leik á heimavelli í undanúrslitum 2-1 yfir hefðu þeir líkast til tekið því boði. Það verður blásið til veislu í Þorlákshöfn á sunnudaginn!
Kannski má segja að Valsmenn hafi fengið þennan á tilboði í kvöld – sigrar í úrslitakeppninni eru ekki oft þægilegir. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort það sé gott fyrir liðið, í Þorlákshöfn með Shahid og Semple (verði hann með) er Þór allt önnur skepna. Í það minnsta má búast við jafnari og skemmtilegri leik á sunnudaginn.
Myndasafn (væntanlegt)