spot_img
HomeFréttirFréttablaðið: Kristófer Acox er kominn heim

Fréttablaðið: Kristófer Acox er kominn heim

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Kristófer Acox, leikmaður Furman háskólans í Bandaríkjunum og fyrrum KR-ingur, væri á heimleið og gengi nú í raðir KR-inga. Það er því orðið að veruleika það sem Karfan.is greindi frá í síðustu viku. Kristófer verður með leikheimild og klár fyrir annan leik KR og Keflavíkur í undanúrslitum Domino's deildar karla. 

 

Furman lauk keppni í CollegeInsider.com keppninni eftir tap gegn Saint Peter's háskólanum á miðvikudagskvöldið, 77-51. Kristófer lauk leik með 11 stig, 7 fráköst og 2 stolna bolta. Þar með lauk glæstum ferli Kristófers fyrir Furman háskólann með 13,1 stig; 7,7 fráköst; 1,4 stolna og tæp 1 varið skot í leik á þessari leiktíð. 

 

Kristófer lauk leiktíðinni með 62,8% skotnýtingu sem er næstbesta nýting allra í SoCon riðlinum og 9. besta nýtingin í allri NCAA deildinni. Þrjú ár í röð í topp 10 yfir sóknarfráköst í SoCon riðlinum, þar af tvö ár í röð efstur. Er með næstflest sóknarfráköst frá upphafi í SoCon riðlinum á ferlinum með 306. Alltaf í topp 10 yfir heildarfráköst í SoCon og er í 18. sæti yfir heildarferilinn í SoCon með 782 fráköst.

 

Kristófer er með þriðja besta PER gildi SoCon riðilsins á þessari leiktíð með 24,6. Kristófer hefur bætt sóknarleik sinn mjög mikið á árunum hjá Furman og er nú með 116,3 í offensive rating eða það 9. besta í SoCon og ávalt framarlega í varnarleik með 92,7 í defensive rating sem er það besta í SoCon.

 

Kristófer leiddi SoCon í defensive win shares með 2,3 og var þriðji í heildar win shares með 4,8.

 

Það er því engum blöðum um það að fletta að Kristófer er mikill happafengur fyrir KR fyrir lokasókn þeirra að fjórða titlinum í röð.

Fréttir
- Auglýsing -