Það var rafmögnuð stemmning í DHL Höllinni þegar að Keflvíkingar heimsóttu Vesturbæinn í kvöld. Staðan í einvíginu 1-1 eftir frábæran sigur Keflvíkinga í síðasta leik. Mikið var rætt og skrifað um dómgæsluna eftir leik tvö en hann var skilinn eftir þegar að boltanum var kastað upp í byrjun leiks. Hjá heimamönnum var Jón Arnór Stefánsson algerlega fábær með 31 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar en Hörður Axel Vilhjálmsson var með 26 stig, 4 fráköst og 10 stoðsendingar fyrir gestina.
Gangur leiksins
KR-ingar byrjuðu leikinn aðeins betur og komust fljótlega í 10-5, Pavel var duglegur á blokkinni og þurftu Keflvíkingar að tvöfalda og Jón Arnór nýtti sér það til þess skora nokkur stig. Keflvíkingar hins vegar voru betri þegar að leið á leikhlutann og eftir nokkur hugguleg þriggja stiga skot frá Magnúsi Má og góð sóknarfráköst sem skiluðu körfum var staðan orðin 17-23 þegar að flautan gall.
Keflvíkingar héldu áfram uppteknum hætti í 2. Leikhluta og voru að setja opnu skotin sín, þá sérstaklega Ágúst Orrason sem átti afskaplega fínan leikhluta og spilaði vel á báðum endum vallarins. Liðin keyrðu hraðann vel upp í leikhlutanum og varð leikurinn stórskemmtilegur og mikið fyrir augað. Það var þó Kristófer Acox sem átti tilþrif leiksins þegar hann fékk boltann á leið að körfunni og tróð honum harkalega í grímuna á Arnóri Sveinssyni sem var nýkominn inná. Arnór fær samt að eiga það að hann reyndi að spila vörn og gerði sig ekki lítinn, þá getur svona gerst. Kristófer bara of sterkur. Munurinn 5 stig þegar að liðin héldu til búningsherbergja, 45-50 fyrir Keflavík. Í hálfleik var Jón Arnór kominn með 16 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar en hinum megin var Hörður Axel frábær og var með 15 stig, 2 fráköst og 6 stoðsendingar.
Í byrjun 3. Leikhluta létu KR-ingar dómarana fara eitthvað í taugarnar á sér, voru komnir með 4 villur strax eftir tveggja mínútna leik og þegar að Guðmundur Jónsson smellti niður þristi af öðrum fæti vel fyrir utan þriggja stiga línuna í þann mund sem skotklukkan rann út voru Keflvíkingar með 9 stiga forystu og farið að fara um stuðningsmenn KR. Finnur tók leikhlé og það virðist hafa virkað, Sigurður Þorvaldsson og Brynjar Þór settu niður þriggja stiga skot og Kristófer Acox jafnaði svo leikinn í 63-63 með frábærum stolnum bolta og troðslu. Suðurnesjamenn gáfust þó ekki upp og með herkjum tókst þeim að komast aftur yfir og var staðan 67-68 þegar að leikhlutanum lauk.
Lokaleikhlutinn hófst með körfu frá Pj Alawoya og manni fannst eins og lappir Keflvíkinga væru orðnar frekar þreyttar þegar að Jón og Pavel áttu frekar auðveld hlaup upp að körfunni framhjá sínum varnarmönnum, KR að sigla framúr og Jón Arnór ætlaði ekki að tapa þessum leik, lék á alls oddi, skoraði 10 stig í röð og breytti stöðunni í 83-72. Nú hóft stórfurðulegur kafli hjá KR þar sem þeir reyndu að verja forystuna frekar en að skora, töpuðu nokkrum boltum og Keflvíkingar klóruðu sig inn í leikinn. Amin Stevens skoraði eftir sóknarfrákast þegar að 50 sekúndur voru eftir og var munurinn einungis 1 stig. Keflvíkingar töpuðu boltanum í næstu sókn og KR lét Jón Arnór fá boltann. Hann svæfði Stevens og setti frábært skot og KR 3 stigum yfir þegar að 15 sekúndur voru eftir.
Lokasekúndurnar voru frábær skemmtun, klikkuð víti, viljandi villur, smá æsingur þegar að dómararnir þurftu að athuga hvort liðið átti boltann þegar að einungis 1,5 sekúndur voru eftir af leiknum en að lokum náði Hörður ekki nógu góðu skoti á körfuna í lokasókninni og KR-ingar fögnuðu þriggja stiga sigri 91-88.
Kvabb
Bæði liðin voru fullmikið að kvarta í dómurunum að mati undirritaðs en það var kannski viðbúíð eftir vikuna og umræðuna eftir síðasta leik. Sérstaklega var áberandi hvað KR-ingar létu dóma fara mikið í taugarnar á sér, bæði í sókn og vörn í 3. leikhluta. Það er mikið undir en vonandi geta liðin stillt sig í næsta leik og látið (góða) dómara leiksins meira í friði.
Tölfræðin lýgur ekki
Fráköst geta talið mikið í jöfnum leikjum og unnu KR-ingar frákastabaráttuna með ansi miklum mun og tóku 49 fráköst gegn 36 fráköstum Keflvíkinga. Það er þó samt þannig að agaður sóknarleikur getur unnið upp slíkan mun og þá sérstaklega með því að passa boltann og halda töpuðum boltum í lágmarki. Keflvíkingar gerðu það, töpuðu einungis 8 boltum í leiknum og þar af bara 1 í fyrri hálfleik. KR-ingar töpuðu hins vegar 13 boltum sem skiluðu sér í 21 stigi úr hraðaupphlaupum frá Keflvíkingum.
Maður leiksins
Jón Arnór Stefánsson var algerlega frábær í þessum leik og dró vagninn fyrir sína menn báðum megin við hálfleikinn. Hann skoraði körfur í öllum regnbogans litum og setti líka körfuna í lokin sem reyndist of erfitt fyrir Keflvíkinga að vinna til baka. Einnig var varnarleikurinn til algerrar fyrirmyndar. Hann lauk leik með 31 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar, setti 4 þrista og skaut 54/66/100.
Framhaldið
Næsti leikur er á þriðjudaginn og má búast við troðfullu Sláturhúsi. Ég hvet alla sem hafa áhuga á körfubolta, dramatík, æsingi og skemmtun að mæta á þann leik. Þetta verður eitthvað.
Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson
Myndir Bára Dröfn