Grindvíkingar mættu með bakið upp við vegg í DHL Höllina í kvöld eftir afskaplega sárt tap suður með sjó í síðasta leik. Verkefi dagsins einfalt en erfitt, vinna leikinn og tryggja sér allavega 1 leik í viðbót þennan veturinn. KR-ingar hins vegar vildu klárlega rífa sópinn fram og loka tímabilinu með stæl. Eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem Grindvíkingar höfðu þó frumkvæðið stungu þeir af í þriðja leikhluta og þrátt fyrir áhlaup tókst KR-ingum ekki að ná þeim og Grindvíkingar fögnuðu sigri 86 – 91. Ólafur Ólafsson var bestur í jöfnu liði Grindavíkur með 25 stig og 9 fráköst en hjá heimamönnum var Jón Arnór Stefánsson atkvæðamestur með 26 stig og 8 fráköst.
Gangur leiksins
Grindvíkingingar byrjuðu leikinn betur og komust í 0-6 áður en KR-ingar náðu að svara. Grindvíkingar hins vegar voru sterkari allan leikhlutann, kláruðu hann vel og leiddu með 8 stigum eftir fyrsta leikhluta. 2. Leikhluti var voðalega svipaður hinum fyrri, Suðurnesjamenn betri en KR aldrei langt undan. Það var gaman að sjá baráttuna í Grindvíkingum og hversu vel þeir hreyfðu boltann sóknarlega. Voru komnir með 15 stoðsendingar í hálfleik og leiddu 47 – 51 þegar að flautan gall. Jón var stigahæstur KR í fyrri hálfleik með 15 stig en Ólafur með 12 stig fyrir gestina.
Seinni hálfleikurinn og þá sérstaklega 3. Leikhluti var eign Grindvíkinga, þeir pressuðu KR vel í vörninni, hreyfðu boltann og fengu opin skot sóknarlega. Það var farið að fara um KR-inga í stúkunni þegar að Ólafur skellti niður þristi og kom Grindvíkingum 19 stigum yfir. KR lagaði þó stöðuna aðeins og voru 13 stigum undir þegar að 4. Leikhluti hófst. Þórir Guðmundur átti góða innkomu hjá KR-ingum í lokaleikhlutanum, setti góð skot og var áræðinn, en það reyndist ekki nóg, Grindvíkingar héldu út og unnu gríðarlega sterkan sigur, 86 – 91.
Tölfræðin lýgur ekki
Eins og í síðasta leik, þá var sigurliðið einfaldlega betra á öllum sviðum. Grindvíkingar tóku fleiri fráköst (50 gegn 45), gáfu fleiri stoðsendingar (25 gegn 16) og skutu boltanum betur (43% gegn 38%). Sérstaklega skaut byrjunarlið KR-inga illa, ef maður tekur Jón Arnór út fyrir sviga þá skutu þeir einungis 36%.
Kjarninn
Grindvíkingar spiluðu betur í vörn og í sókn í dag heldur en í síðasta leik og litu mikið meira út eins og þeir gerðu á móti Stjörnunni í undanúrslitunum. Þeir héldu sig við einföld kerfi með boltahindrunum fyrir sína bestu leikmenn og nýttu sér að KR skipti á öllum hindrunum. Sérstaklega var gaman að sjá Dag Kár og Lewis Clinch aftur í essinu sínu að skjóta opnum löngum tvistum, þar eru þeir bestir.
Hetjan
Ólafur Ólafsson var algerlega frábær í dag á öllum sviðum. Hann spilaði frábæra vörn á að manni fannst allt lið KR, hann var að skjóta boltanum með miklu sjálfstrausti og var að venju duglegur í fráköstunum. Undirritaður nýtur þess mikið að horfa á Ólaf spila körfubolta þegar hann áttar sig á því hvað hann er góður sóknarmaður, stundum er eins og hann vilji halda sig við að hnoðast undir körfunni en hann getur alveg skotið svona hvenær sem er.
Andhetjurnar
Í liði KR áttu nokkrir leikmenn vondan leik. Pavel Ermolinskij hélt áfram uppteknum hætti frá síðasta leik og var ragur í sínum aðgerðum, skaut boltanum illa og gaf ódýrar villur, Darri Hilmarsson hitti verulega illa og var áhrifalaus sóknarlega og Kristófer Acox fór aftur í það að klikka á galopnum sniðskotum og átti erfitt með að klára undir körfunni.
Næstu skref
Þetta er ekkert flókið. Ef Kr vinnur í Grindavík á fimmtudaginn verða þeir Íslandsmeistarar. Ef Grindavík vinnur þá verður oddaleikur í DHL höllinni.
Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson
Myndir Bára Dröfn