Tindastóll lagði Njarðvík í Síkinu í kvöld í öðrum leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Subway deild karla, 97-86. Stólarnir eru því komnir í 2-0 í einvíginu og geta á miðvikudagskvöldið tryggt sig áfram í úrslitin með sigri í Njarðvík.
Fyrir leik
Fyrsta leik einvígis liðanna gjörsigraði Tindastóll í frekar óspennandi leik í Ljónagryfjunni, 52-85.
Síðan að Pavel tók við þjálfun Tindastóls í janúar hafði liðið unnið alla sína leiki heima í Síkinu nema einn, en þetta eina tap kom á móti Njarðvík í janúar. Í þeim leik var Nicholas Richotti besti leikmaður vallarins með 20 stig, 5 fráköst og 8 stoðsendingar á rúmum 24 mínútum spiluðum.
Gangur leiks
Eftir að hafa verið kjöldregnir á heimavelli í fyrsta leik einvígis liðanna mætti Njarðvík með miklu meira ígi til leiksins í Síkinu í kvöld. Sóknarlega ná þeir þó ekki miklu flugi í upphafi leiks á meðan að Stólarnir ná að koma öllum sínum lykilmönnum í takt við leikinn. Munurinn þó bara 4 stig eftir fyrsta leikhluta, 25-21, en hefði auðveldlega getað verið meira.
Stólarnir ná svo enn frekar að festa tennur sínar í leiknum í öðrum leikhlutanum. Áfram virðast Njarðvíkingar vera mættir til að berjast en sóknarhelmingi vallarins er hreinlega pínlegt að horfa á þá löngum stundum og eru það ekki bara Stólarnir sem eru að gera þeim lífið leitt með þéttri vörn, heldur eru þeir sjálfir að klúðra sniðskotum, vítum og boltanum sjálfum alltof oft í þessum fyrri hálfleik. Stólarnir þó ekki langt undan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 45-36.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Adomas Drungilas með 11 stig á meðan að Dedrick Basile og Mario Matasovic voru hvor um sig með 11 stig fyrir Njarðvík.
Njarðvíkingar koma muninum niður í tvö stig með góðu sjö stiga áhlaupi í upphafi seinni hálfleiks, 45-43. Heimamenn svara því ágætlega og ná áfram að vera skrefinu á undan inn í þriðja leikhlutann, þar sem munurinn er enn 9 stig þegar 5 mínútur eru eftir af þriðja fjórðung, 54-45. Stólarnir komast svo á gott flug undir lok fjórðungsins þar sem forysta þeirra fer mest í 15 stig, en munurinn fyrir lokaleikhlutann eru 12 stig, 69-57. Heimamenn ná að halda Njarðvík í þægilegri fjarlægð allan fjórða leikhlutann, þegar fimm mínútur eru eftir eru þeir 11 stigum yfir, 78-67 og sigra leikinn að lokum með 11 stigum, 97-86.
Atkvæðamestir
Bestur í liði Tindastóls í kvöld var Adomas Drungilas með 13 stig, 10 fráköst, 2 stoðsendingar og 83% skotnýtingu. Fyrir Njarðvík var það Dedrick Basile sem dró vagninn með 23 stigum og 7 stoðsendingum.
Kjarninn
Þrátt fyrir meiri baráttu í kvöld heldur en í síðasta leik hefur Njarðvík ekki sýnt neitt sem bendir til þess að þeir eigi skilið að vinna leik í þessari seríu. Tindastóll betri í öllum atriðum leiksins. Sóknarlega eru þeir fínir, en vörnin sem þeir spila gjörsamlega tekur Njarðvík úr sambandi á löngum köflum. Njarðvíkingar virðast vera, eins og svo margir voru hræddir um fyrir þessa úrslitakeppni, deildarkeppnislið fullt af leikmönnum sem eru hreinlega ekki klárir í þá baráttu sem fylgir því að spila oftar en einusinni í viku og gegn þeirri hörku sem Tindastóll hefur upp á að bjóða.
Hvað svo?
Þriðji leikur einvígis liðanna er á dagskrá komandi miðvikudag 26. apríl kl. 19:15 í Ljónagryfjunni í Njarðvík.